„Þegar litið er á heildarniðurstöðu skýrslunnar þykir mér afar mikilvægt að mörg veigamikil atriði, sem sumir voru búnir að reyna að tengja mig við í plastbarkamálinu – eiga ekki við rök að styðjast,“ segir Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítalanum í viðtali við Morgunblaðið um helgina.
„En svo eru smærri atriði sem meira hefur verið einblínt á í fjölmiðlum: Af hverju gerðirðu svona en ekki hinsegin? Þó að ég hafi alltaf verið í góðri trú, með hagsmuni Andemariams Beyene að leiðarljósi, eru vissulega ýmis smærri atriði sem maður sér eftir á að hefði verið hægt að gera öðruvísi, ef maður hefði vitað hvernig málum var háttað. Það er auðvelt að vera vitur eftir á, ekki síst þegar maður sér loks heildarmyndina,“ segir hann.
Kjarninn fjallaði um niðurstöður íslensku rannsóknarnefndarinnar sem Landspítali og Háskóli Íslands settu á stofn og kynntar voru þann 6. nóvember síðastliðinn. Þar kom fram að lífi þriggja einstaklinga hafi verið kerfisbundið stofnað í hættu vegna plastbarkaígræðslu á Karolinska-sjúkrahúsinu og að allir hafi þeir átt undir högg að sækja í samfélaginu. Þetta hafi verið gert á grundvelli áforma stofnunarinnar um uppbyggingu miðstöðvar fyrir háþróaðar aðgerðir á öndunarvegi og er að mati nefndarinnar ekki hægt að útiloka að með þessu hafi 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið brotinn.
Fram kom einnig að ekki verði annað séð en að Tómasi Guðbjartssyni, lækni Andemariam Beyene, sem fyrstur gekkst undir plastbarkaígræðslu í júní 2011, hafi gengið gott til með plastbarkaígræðslunni en að hann hafi látið blekkjast af Maccharini og breytt tilvísun en það varði lög um lækna, 11. gr., sem þá voru í gildi um vönduð vinnubrögð og jafnframt að ákvarðanataka í aðdraganda aðgerðarinnar hafi verið ómarkviss.
Tengsl mynduðust sem urðu að vináttu
Atburðarásin er rekin í viðtalinu og segir Tómas að í tilviki Andemariams hafi hann kynnst honum við mjög sérstakar aðstæður, í bráðaaðgerð sem hann náði að lifa af. „Ég, eins og svo margir aðrir, hreifst af viljastyrk hans, greind og persónuleika. Svo var hann að læra jarðfræði, pabbi minn er jarðfræðingur og félagar hans í kringum námið voru einnig kunningjar föður míns. Þannig að einhvern veginn mynduðust með okkur tengsl sem urðu að vináttu í tímans rás.“
Í viðtalinu segir enn fremur að nefndin hafi ályktað sem svo að vinátta þeirra hafi ekki haft áhrif á hversu góða meðferð Andemariam fékk en ekki sé hægt að útiloka að vegna vináttunnar hafi Andemariam staðið höllum fæti og veigrað sér við að láta í ljós við Tómas ef hann var mótfallinn einhverju.
„Ég á erfitt með að samþykkja það og finnst ósanngjarnt að ýja að því að ég hafi notfært mér vináttu hans mér til framdráttar,“ segir Tómas. „Andemariam var með greindari einstaklinum sem ég hef hitt, eldklár og aflaði sér upplýsinga um allt sem sneri að meðferð hans og stöðu mála almennt. Hann var líka óhræddur við að tjá sig ef honum mislíkaði eitthvað.“
Allir benda á einhvern annan
Tómas segist ekki vera rétti aðilinn til að setja sig í dómarasæti þegar hann er spurður út í ábyrgð Karolinska en það séu vissulega alvarleg atriði sem koma fram í skýrslunni. „Þar virðast allir benda á einhvern annan og búið er að setja að ég held a.m.k. 15 nefndir í gang í Svíþjóð út af ýmsum öngum þessa máls. En þetta er vissulega ekki einungis innanhússmál Karolinska og snertir m.a. Ísland og Landspítalann. En það er ekki fyrr en núna alveg í lokin sem mér finnst ég hafa fengið þokkalega heildarmynd af því hvað var í gangi þarna úti,“ segir hann.
Honum fannst hann aldrei þrýsta óeðlilega á Andemariam að koma fram í viðtölum og á málþingi í Háskóla Íslands á sínum tíma en hann viðurkennir þó að þessi mörk geti verið óskýr. „Hann kaus sjálfur að koma fram í fjölmiðlum og tók sjálfur beint við viðtalsbeiðnum eins og frá stóru fjölmiðlunum ytra, s.s. BBC og New York Times. Hann bar hins vegar oft undir mig hvort hann ætti að taka viðtölin. Í skýrslunni er talað um að ég hafi ekki latt hann til þess að fara í viðtöl og það er rétt. Við höfðum leitað ráða hjá fólki sem við treystum og töldum honum til góðs í því ferli að fá að vera áfram á Íslandi, enda var sú barátta ekki síður flókin og tímafrek en eftirmeðferðin eftir ígræðsluna. En engu sem ég stakk upp á við Andemariam tók hann sem gefnu, eins og varðandið málþingið. Hann var það viljasterkur persónuleiki,“ segir hann.
Enginn fullkominn
Þegar Tómas er spurður hvort hann hefði getað gert hlutina öðruvísi svarar hann að enginn sé fullkominn og að hann hafi lagt mikla áherslu á það í sinni kennslu sem prófessor í skurðlækningum. „Ég segi alltaf að góður skurðlæknir sé sá sem horfist í augu við vandamálin þegar þau koma upp. Það er auðvelt að taka við þakklæti fyrir aðgerð sem gekk vel, en það sést hversu góður læknir þú ert þegar þú lendir í flóknum tilfellum og mótlæti sem þeim fylgir. Þá verður ekki aðeins að sýna læknisfræðilega hæfileika heldur færni í mannlegum samskiptum. Ég held að Andemariam og fjölskylda hans geti borið vott um að ég hafi lagt mig allan fram í samskiptum við þau.“
Hann segir að ekkert mál sem hann hefur komið að á læknisferlinum hafi haft jafnmikil áhrif á hann, bæði sem lækni og persónu. Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á mbl.is.