Bann gegn fosfati í Evrópu gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir aðdáendur kebabsins. Til skoðunar er nú á Evrópuþinginu að banna fosfat sem er lykilhráefni til að halda kebab-kjöti safaríku og bragðmiklu.
Þetta kemur fram í frétt The Guardian en í henni er greint frá því að ef bannið verði að veruleika þá muni það hafa gríðarleg áhrif á matvælaframleiðslu með kebab.
Kebab nýtur mikilla vinsælda víða í Evrópu en í frétt The Guardian segir að um 200 þúsund manns vinni í geiranum. Í Þýskalandi er þetta einn vinsælasti skyndibitinn og því hefur fréttunum ekki verið vel tekið þar í landi.
Fosfat er mikið notað í matvælaframleiðslu, til að mynda má finna það í ýmsum kjötvörum, sjávarfangi, ávöxtum og grænmeti. Fosfat eykur vökvasöfnun í matvörum og gerir kjöt meyrara. Einnig viðheldur það bragðinu lengur.
Bann á fosfati dauðadómur fyrir kebabinn
Talið er að um 1,3 milljón döner-kebabar, sem er tyrknesk útgáfa af kebab, séu seldir á hverjum degi í Bretlandi á meira en 20 þúsund sölustöðum.
„Ef Evrópuþingið kemst upp með þetta þá mun það verða dauðadómur fyrir döner-kebab bransann í Evrópusambandinu,“ segir Kenan Koyuncu formaður sambands þýskra kebabframleiðenda.
Einnig hefur Renate Sommer, embættismaður á vegum Kristinna demókrata í Þýskalandi, lýst yfir áhyggjum sínum varðandi áform Evrópuþingsins og sagt að bannið muni valda því að þúsundir muni missa vinnuna.
Ástæðan fyrir banninu er sú að forfat er talið hafa slæm áhrif á heilsu en rannsóknir frá árinu 2012 gefa til kynna að tenging sé milli notkunar fosfats í matvælaframleiðslu og hjartasjúkdóma.
Evrópuþingið mun greiða atkvæði um málið eftir tvær vikur í Strasbourg en ef þingið kýs gegn tillögunni þá mun það fara aftur til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.