Konurnar sem greindu frá reynslu sinni og rufu þagnarmúrinn hafa verið valdar persóna ársins hjá tímaritinu TIME.
Í tilkynningu TIME segir að fólk sem brotið hefur þagnarmúrinn varðandi kynferðislegt ofbeldi og áreitni sé af öllum kynþáttum, í öllum stéttum, sinni ýmiss konar störfum og búi víðsvegar í heiminum. Sameiginleg reiði þeirra hafi haft í för með sér gríðarlega miklar og átakanlegar afleiðingar. Vegna áhrifa þessa fólks á árinu 2017 hafi það því hlotið titilinn manneskja ársins.
Leiddi af sér byltingu
Myllumerkið #metoo hefur verið mjög áberandi á samfélagsmiðlum undanfarið. Ástæðan er fall og brot framleiðandans Harvey Weinstein. Hann hefur verið ásakaður um að áreita fjölda kvenna en margar leikkonur hafa stigið fram og greint frá sinni reynslu af honum.
Harvey Weinstein er annar stofnenda Miramax framleiðslufyrirtækisins en hann hefur framleitt stórmyndir á borð við Pulp Fiction, Clerks, The Crying Game og Sex, Lies and Videotape. Hann hefur ásamt bróður sínum, Bob Weinstein, rekið framleiðslufyrirtækið The Weinstein Company frá árinu 2005.
Í The New York Times kom fram að Weinstein hafi á þrjátíu ára ferli greitt skaðabætur í að minnsta kosti átta aðskildum málum vegna margvíslegra brota tengdum kynferðisáreitni.
Fjöldi brotaþola er gríðarlegur en líklegt þykir að tugir kvenna hafi orðið fyrir barðinu á honum. Meðal þeirra kvenna eru leikkonurnar Ashley Judd og Rose MacGowan, ítölsk fyrirsæta að nafni Ambra Battilana og tvær aðstoðarkonur Weinstein.
Leikkonan Alyssa Milano, sem er fræg fyrir leik sinn í þáttunum Melrose Place, Who´s the Boss og Charmed, var áhrifavaldur þess að #metoo náði slíkri útbreiðslu sem raun ber vitni eftir að hún hvatti á Twitter þann 15. október síðastliðinn konur að stíga fram og segja frá reynslu sinni.