Umhverfisstofnun fagnar samantekt SFS sem birtist í gær um nýtingu auðlinda og umhverfisspor í sjávarútveginum og þeim árangri sem hefur náðst sem sé mikilvægt skref í rétta átt til að standast alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Þetta kemur fram í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans varðandi nýja umhverfisskýrslu SFS.
Kjarninn fjallaði um skýrsluna þegar hún kom út en þar kom meðal annars fram að eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafi í heild minnkað um tæplega 43 prósent frá árinu 1990 til ársins 2016 og áætlað sé að sjávarútvegur dragi úr eldsneytisnotkun um 134 þúsund tonn á tímabilinu 1990 til 2030.
Jafnframt kemur fram í skýrslunni að fiskibræðsla verði nær eingöngu knúin með rafmagni og raforkuframleiðsla um borð í fiskiskipum með ljósavél sem liggja í höfn heyri til undantekninga. Gangi þetta eftir muni eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafa dregist saman um 54 prósent á tímabilinu.
Umhverfisstofnun metur árlega losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og skilar skýrslu um losunina til Framkvæmdastjórn ESB og Loftslagssamnings sameinuðu þjóðanna. Í þeirri skýrslu er losunin gefin upp samkvæmt flokkum sem gefnir eru upp í leiðbeiningariti IPCC og er því losun frá sjávarútvegi gefin upp í fleiri en einum flokki.
Í svari Umhverfisstofnunar segir að skýrsla SFS byggi ekki beint á skýrslunni sem Ísland skilar til ESB eða UNFCCC og geti því verið smávægilegur munur á framsetningu gagna og aðferðafræði sem notuð er í umræddri skýrslu og í losunarbókhaldi Íslands.
Hins vegar virðist stóra myndin vera í samræmi við þeirra tölur sem einnig sýna samdrátt um yfir 40 prósent vegna bruna á jarðefnaeldsneyti miðað við árið 1990.
„Það sem vantar inn í sviðsmyndina, eins og réttilega kemur fram í skýrslunni, er losun frá fiskiskipum sem sigla á fjarlæg mið og það eldsneyti sem sett er á skip erlendis. Sú losun yrði gefin upp í losunarbókhaldi þess ríkis sem eldsneytið er keypt í.
Í skýrslunni er áherslan á losun vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, en ekki er tekið mið af losun vegna t.d. leka á F-gösum frá kæli-/frystikerfum tengdum sjávarútvegi (fiskiskip, frystihús). Hlýnunarmáttur F-gasa er mjög hár og því getur lítil losun haft umtalsverð gróðurhúsaáhrif. Einnig er fellur til úrgangur, eins og einnig kemur fram í skýrslunni, sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í svari Umhverfisstofnunar.