Hlustendur Rásar 2 hafa valið #metoo-konur manneskju ársins í tuttugasta og níunda sinn. Þetta var tilkynnt í þættinum Á síðustu stundu á Rás 2 í dag.
Fimmtudaginn 21. desember var byrjað að taka við tilnefningum á ruv.is. Þáttastjórnendur Rásar 2 opnuðu einnig reglulega fyrir símann og tóku við tilnefningum.
Á milli jóla og nýárs voru kynntir listar með nöfnum þeirra tíu sem fengu flestar tilnefningar hlustenda. Þá tók við síma- og netkosning, þar sem hægt var að kjósa sína manneskju á ruv.is, samhliða símakosningu á Rás 2. Þeirri kosningu lauk 30. desember.
Byrjaði með Weinstein
Í byrjun október síðastliðins birtist umfjöllun um kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein en í henni greindu leikkonur frá reynslu sinni af ofbeldi af hans hálfu. Hann var ásakaður um að áreita fjölda kvenna en margar leikkonur stigu fram. Harvey Weinstein er annar stofnenda Miramax framleiðslufyrirtækisins en hann hefur framleitt stórmyndir á borð við Pulp Fiction, Clerks, The Crying Game og Sex, Lies and Videotape. Hann hefur ásamt bróður sínum, Bob Weinstein, rekið framleiðslufyrirtækið The Weinstein Company frá árinu 2005.
Í The New York Times kom fram að Weinstein hafi á þrjátíu ára ferli greitt skaðabætur í að minnsta kosti átta aðskildum málum vegna margvíslegra brota tengdum kynferðisáreitni.
Fjöldi brotaþola er gríðarlegur en líklegt þykir að tugir kvenna hafi orðið fyrir barðinu á honum. Meðal þeirra kvenna eru leikkonurnar Ashley Judd og Rose MacGowan, ítölsk fyrirsæta að nafni Ambra Battilana og tvær aðstoðarkonur Weinstein.
Leikkonan Alyssa Milano, sem er fræg fyrir leik sinn í þáttunum Melrose Place, Whos the Boss og Charmed, var áhrifavaldur þess að #metoo náði slíkri útbreiðslu sem raun ber vitni eftir að hún hvatti á Twitter þann 15. október síðastliðinn konur að stíga fram og segja frá reynslu sinni.
Myllumerkið á uppruna sinn í grasrótarsamtökum árið 2006 þegar aðgerðasinninn Tarana Burke bjó það til á samfélagsmiðlinum MySpace. Hugmyndin var sú að tengja saman svartar konur sem orðið höfðu fyrir kynferðisofbeldi og að nota samkennd til að styrkja konur og efla þær.
Rúmlega 4.700 hafa skrifað undir áskorun
Eftir að umræðan um #metoo komst í hámæli fóru konur á Íslandi að segja sögur sínar opinberlega, þó flestar nafnlausar. Konur í stjórnmálum riðu á vaðið og sendu frá sér áskorun þann 24. nóvember síðastliðinn. Síðan þá hefur fjöldi starfsstétta gefið út yfirlýsingar þar sem kynferðislegu áreiti, ofbeldi og mismunun er mótmælt.
Krafan er skýr: Konur vilja breytingar. Þær vilja að samfélagið viðurkenni vandann og þær hafna núverandi ástandi. Þær krefjast þess að samverkamenn þeirra taki ábyrgð á gjörðum sínum og að verkferlum verði komið í gagnið og viðbragðsáætlanir gangsettar.
Nú hafa rúmlega 4.700 konur úr ýmsum starfsstéttum skrifað undir áskorun þar sem þær setja fram kröfur sínar og deilt með þjóðinni 543 sögum. Hver og ein saga lýsir reynslu konu sem þurft hefur að takast á við áreiti, ofbeldi eða mismunun vegna kyns síns.
#Metoo-þátttakendur einnig valdir af TIME magazine
Konurnar sem greindu frá reynslu sinni og rufu þagnarmúrinn voru einnig valdar persóna ársins hjá tímaritinu TIME í byrjun desember en það segir okkur að loksins er farið að hlusta.
Í tilkynningu TIME segir að fólk sem brotið hefur þagnarmúrinn varðandi kynferðislegt ofbeldi og áreitni sé af öllum kynþáttum, úr öllum stéttum, sinni ýmiss konar störfum og búi víðs vegar í heiminum. Sameiginleg reiði þeirra hafi haft í för með sér gríðarlega miklar og átakanlegar afleiðingar. Vegna áhrifa þessa fólks á árinu 2017 hafi það því hlotið titilinn manneskja ársins.