Telegram lokaði tímabundið spjallrás sem kallaði eftir ofbeldisfullum mótmælum gegn ríkisstjórn Írans síðastliðinn sunnudag.
Telegram framleiðir vinsælt skilaboðasmáforrit og er það notað víða í Íran. Rúmlega 40 milljónir manns nota forritið í landinu en það er um helmingur íbúanna. Samkvæmt heimildum fréttamiðilsins Recode hefur það haft mikil áhrif á samskipti í mótmælunum í Íran gegn ríkisstjórn Ayatollah Khamenei.
Umfangsmikil mótmæli hafa verið í landinu undanfarna daga og viku. Tugir hafa verið drepnir og hundruðir fangelsaðir. Ali Khamenei æðstiklerkur Írans hefur sagt óvini ríkisins að baki mótmælanna en upphaflega beindust mótmælin gegn versnandi efnahag og hækkandi matvælaverði en hafa þau nú beinst gegn stjórnvöldum sjálfum.
Framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa fengið athugasemdir frá írönskum stjórnvöldum þess efnis að þeir verði að fylgjast með notendum smáforritsins og sérstaklega mótmælendum.
Mohammad-Javad Azari Jahromi, fjarskiptaráðherra Írans, sendi skilaboð til framkvæmdastjóra og stofnanda fyrirtækisins, Pavel Durov, á Twitter á laugardaginn síðastliðinn, þar sem hann hvatti Telegram til að taka í taumana.
Calls for violence are prohibited by the Telegram rules. If confirmed, we'll have to block such a channel, regardless of its size and political affiliation.
— Pavel Durov (@durov) December 30, 2017
Durov svaraði um hæl og sagði að ákall um ofbeldi væri ekki liðið hjá Telegram og ef þetta yrði staðfest þá væri ekki um annað að ræða en að loka samskiptarásinni. Ekki skipti máli stærð hennar eða pólitísk tengsl.
Aðrir samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Twitter hafa sömuleiðis þurft að skilgreina hvaða orðræða sé í lagi á miðlum þeirra og hvað falli undir brot á reglum þeirra.