Leiga á stúdentaíbúðum á vegum Byggingafélags Námsmanna mun hækka um 7,5 prósent eftir 1. apríl næstkomandi. Þessi hækkun þýðir að einstaklingsíbúð, sem áður kostaði um 101.000 krónur muni hækka í 110 þúsund. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn félagsins.
Húsaleiga allt að 62 prósent af heildartekjum
Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir að þessi hækkun sé mikið högg fyrir stúdenta og sé í engu samræmi við hækkun námslána sem var síðast um 2 prósent á milli ára. Einhleypur námsmaður með full námslán fær 177.000 krónur og því verður húsaleiga 62 prósent af heildartekjum námsmanna, að undantöldum húsaleigubótum sem eru um 32.000 krónur á mánuði. Ragna bendir á að samkvæmt Íbúðalánasjóði teljist öll greiðslubyrði húsaleiga yfir 40 prósent af heildartekjum vera „verulega íþyngjandi“.
Frítekjumarkið stendur í stað
Frítekjumarkið hjá LÍN hefur staðið í stað, þrátt fyrir almennar hækkanir í samfélaginu. Ragna segir það vera töluvert lægra en það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Hún segir að fólk sé að lenda í því að vinna meira til að borga leiguna sína en á móti skerðast þá námslánin.
Byggingafélag Námsmanna segir ástæðu hækkunina vera mikil hækkun opinberra gjalda á síðustu árum vegna ört hækkandi fasteignaverðs auk hækkunar á launakostnaði. Félagið hafi mætt þeirri áskorun með fækkun stöðugilda. Stúdentaráð hefur átt samtal við borgaryfirvöld um leiðir til þess að stöðva þessa miklu hækkun á fasteignagjöldum og öðrum opinverum gjöldum þegar að kemur að íbúðum sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni.
Engar breytingar verða gerðar á núverandi samningum heldur einungis þeim sem verða endurnýjaðir eftir 1. Apríl.