Ísraelsk stjórnvöld birtu síðastliðinn sunnudag lista yfir þau samtök sem fá ekki að koma inn fyrir landamæri þeirra. Svonefndur BDS-bannlisti var gefinn út af öryggismálaráðuneyti Ísraels [sem stofnað var árið 2006 til að fást við meinta erlenda ógnvalda eins og Íran]. Friðarsamtökin Jewish Voice for Peace eru á þessum lista.
Frá þessu er greint á ísraelska fréttamiðlinum Haaretz.
Meðlimum þeirra 20 landa sem eru á listanum verður varnað inngöngu í landið vegna stuðnings þeirra við hreyfinguna sem stendur fyrir sniðgöngu ísraelskra vara, fjárlosunaraðgerðum úr landinu og efnahagslegu refsiaðgerðum gegn ísraelsku stjórninni (BDS). Á listanum er fyrst og fremst að finna samtök frá Evrópu og Norður-Ameríku, auk hópa frá rómönsku Ameríku, hóps frá Suður Afríku og alþjóðlegra regnhlífarsamtaka.
Nóbelsverðlaunahafi á listanum
Nafn samtakanna American Friends Services Committee, kvekarasamtaka sem hlutu Friðarverðlaun Nóbels árið 1947 fyrir að aðstoða og bjarga fólki sem nasistarnir ofsóttu, er að finna á listanum yfir þau samtök sem ísraelsk stjórnvöld hafa lýst yfir að þau muni neita um aðgang inn í landið. Á laugardaginn var búið að koma í ljós að gyðinglegu friðarsamtökin Jewish Voice for Peace (JVP) voru á listanum.
„Sú ákvörðun Ísraelsmanna að banna JVP sérstaklega að koma inn í landið er áhyggjuefni en kemur ekki á óvart í ljósi hrörnunar á lýðræðislegum viðmiðum og aukinnar hræðslu í garð BDS-hreyfingarinnar í Ísrael,“ sagði Rebecca Vilkomerson, framkvæmdastjóri samtakanna. „Við látum ekki kúga okkur til hlýðni með þessum tilraunum til að refsa okkur fyrir heilbrigð stjórnmálaleg sjónarmið sem eru að öðlast stuðning æ fleiri gyðinga og annars fólks víðs vegar um veröldina.“
Segjast snúa vörn í sókn
öryggismálaráðherrann Gilat Erdan sagði að Ísraelar hefði snúið vörn í sókn. „Sniðgöngusamtökin þurfa að vita að ísraelska ríkið mun streitast á móti þeim og ekki leyfa þeim að fara inn á landsvæði þess til að vinna borgurum þess mein.“
„Ekkert land myndi leyfa gagnrýnendum sínum að koma inn í landið til að vinna landinu mein,“ bætti hann við.
Innanríkisráðherrann Arye Dery - en ráðuneyti hans verður gert að framfylgja listanum - sagði að þetta fólk væri að reyna að notfæra sér lögin og gestrisni þeirra til að vinna gegn Ísrael og ófrægja landið. „Ég mun vinna gegn þessu með öllum tiltækum ráðum,“ sagði ráðherrann.
Daniel Sokatch, framkvæmdastjóri samtakanna New Israel Fund, svaraði á þennan veg. „Það að banna stjórnmálalega andstöðu er háttalag alræðisstjórna, ekki lýðræðisstjórna,“ sagði hann og bætti við að afstaða þeirra væri byggð á heilindum. „Við styðjum ekki BDS-hreyfinguna. Við stöndum gegn ferðabanni ríkisstjórnarinnar og öllu því sem hún gerir til að refsa þeim sem hún er ósammála.“
Fólki áður verið neitað inngöngu
Áður hefur nokkrum einstaklingum verið neitað um aðgang inn í Ísrael vegna stuðnings þeirra við BDS-hreyfinguna. Isabel Phiri, malavískum ríkisborgara sem býr í Sviss og er stofnmeðlimur í samtökunum World Council of Churches, var komið fyrir í flugi aftur til síns heima eftir að hún lenti á Ben-Gurion flugvellinum í desember árið 2016.
Innflytjendastofnun innanríkisráðuneytisins sagði að það hefði verið í fyrsta sinn sem ísraelska ríkið væri beinlínis að neita ferðamanni um aðgang inn í landið „fyrir and-ísraelskar aðgerðir og fyrir stuðning hans við sniðgönguaðgerðir gegn landinu á sviði fjármála, menningarmála og menntamála.“
Neituðu á gefa upp listann
Mánuðum saman hefur öryggismálaráðuneytið neitað að gefa það út hvaða samtök væru á listanum. Þó voru teymi úr öryggismálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu búin að draga upp þær forsendur sem yrðu notaðar til þess að banna aðgerðarsinnum að koma inn í landið.
Þeim sem eru hátt settir í þeim samtökum sem eru á listanum verður meinaður aðgangur inn í landið, en einnig virkum aðgerðarsinnum innan samtakanna hvort sem þeir gegna einhverju embætti þar eður ei. Borgarstjórum og öðrum stjórnendum sem styðja sniðgönguaðgerðir statt og stöðugt verður líka neitað um aðgang inn í landið, sem og aðgerðarsinnum sem koma til landsins á vegum einhverra samtaka á bannlistanum eða sem hluti af sendinefnd sem eitt þeirra samtaka hefur átt frumkvæði að.