Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gerðu athugasemdir við vinnu Eiríks Jónssonar lagaprófessors fyrir dómsmálaráðuneytið en hann var fenginn til að semja frumvarp um breytingar á skaðabótalögum, ásamt ráðgjafahópi.
Skaðabótalög ákvarða grundvöll fjárhæða bóta fyrir líkamstjón og skipta því ákvæði laganna miklu máli fyrir fjölmarga einstaklinga sem verða fyrir líkamstjóni á ári hverju. Bætur sjómanna samkvæmt slysatryggingum þeirra grundvallast á skaðabótalögum, en sjómenn eru ein af fáum stéttum þar sem bætur geta reiknast á grundvelli laganna. Aðrir sem verða fyrir vinnuslysum eiga möguleika á greiðslu bóta úr almannatryggingum eða úr slysatryggingum atvinnurekenda sinna hjá vátryggingarfélögum. Annars eru bætur fyrir vinnuslys ekki sóttar á grundvelli skaðabótalaga nema það verði rakið til atvika þar sem vinnuveitandi eða aðrir starfsmenn bera ábyrgð á.
Í breytingartillögum Eiríks eru lágmarks- og hámarksárslaun uppfærð, en bæði hafa farið lækkandi í samanburði við launaþróun. Auk þess er svokölluðum margfeldisstuðli breytt en hann er notaður til að reikna áætlaðar tekjur þess sem verður fyrir tjóni og þannig finna út hverjar skerðingar á tekjum viðkomandi verða til framtíðar vegna líkamstjónsins.
Í bréfi SFS sem Kjarninn hefur undir höndum segir að gera megi ráð fyrir því að talsverður hluti sjómanna falli undir hámarkslaun laganna. Tekjur sjómanna eru síbreytilegar og ákvarðast á grundvelli hlutaskiptakerfis þar sem veiði, fiskverð, gengisbreytingar og fleira hafa áhrif. Þannig geti laun þeirra numið afar háum fjárhæðum.
Núgildandi lög segja að ekki skuli miða við hærri laun en 4.500.000 en sú fjárhæð tekur breytingum samkvæmt lánskjaravísitölu. Í breytingartillögunni er gert ráð fyrir að því verði breytt í launavísitölu. Sú breyting felur í sér talsverða hækkun á bæði lágmarks- og hámarkslaunum miðað við þróun umræddra vísitalna. Sé til að mynda litið til desember 2016 nemur fjárhæð lágmarksárslaunanna 3.165.500 krónum ef uppfært er samkvæmt lánskjaravísitölu en 5.412.500 krónum ef uppfært er samkvæmt launavísitölu. Á sama tíma nemur fjárhæð hámarksárslaunanna 11.871.000 krónum ef uppfært er samkvæmt lánskjaravísitölu en 20.296.500 krónum ef uppfært er samkvæmt launavísitölu. Hlutfallslega er um tæplega 71 prósenta hækkun að ræða.
SFS segir að kjarasamningar hafi verið gerðir á þeim forsendum sem núgildandi lög segja til um. Breytingin geti haft talsverð áhrif á kjaraviðræður enda forsendur orðnar allt aðrar en þegar ákveðið var að slysatrygging sjómanna myndi grundvallast á skaðabótalögum. Verði ákveðin breyting á hámarkslaunum óskar SFS eftir því að farið verði í mat á áhrifum er varðar slysatryggingu sjómanna og þá hversu hátt hlutfall slysa á sjó falli undir vísitölutengda ákvæðið.
Auk þess vill SFS að ef margfeldisstuðlarnir verði uppfærðir að skoðað verði hvort gera eigi sérstakta stuðla fyrir sjómenn, þar sem líkt og víðast á hinum almenna vinnumarkaði, aldur eða starfslengd skipverja skipti engu máli þegar tekjur sjómanna eru annars vegar, heldur er það aflaverðmæti sem ákvarði tekjurnar. Sambandið telur að sjómenn passi ekki inn í stuðulinn.
Því telur SFS ekki æskilegt að breyting eigi sér stað á hámarksfjárhæð laganna.
Gera má ráð fyrir að iðgjöld útgerða vegna slysatrygginga starfsmanna sinna hjá vátryggingarfélögunum hækki töluvert, enda geta fjárhæðirnar sem tryggingafélögin þurfa að greiða út ef sjómaður verður fyrir varanlegu líkamstjóni við vinnu, komið til með að hækkað nokkuð með þessum breytingum.
Ekki fæst séð að Eiríkur og ráðgjafahópurinn hafi tekið nokkuð tillit til þessara athugasemda í lokaútgáfu frumvarpsins sem skilað var til ráðuneytisins.