Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast á suðvesturhorni landsins í dag vegna veðurofsa sem nú gengur yfir. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands geta vindhviður verið varasamar og má búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, t.d. á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.
Aðgerðastjórn hefur verið virkjuð í Skógarhlíð til að hafa umsjón með verkefnum á höfuðborgarsvæðinu, en óhöpp hafa verið óveruleg og björgunarstarf gengið vel.
Fólk hefur verið varað við því að vera á ferli að óþörfu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í sjúkraflug til Eyja og var flugferðin vandasöm, sökum óveðursins, að því er segir í tilkynningu. „TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 12:20 og var haldið þangað í lágum hæðum um Þrengsli og svo með suðurströnd landsins. Þyrlan kom til Vestmannaeyja um eittleytið var þá veðrið þar orðið mjög vont og aðflugið krefjandi. Af þeim sökum lenti þyrlan við vesturenda flugbrautarinnar þangað sem sjúkrabíll kom með sjúklinginn. TF-LIF fór aftur í loftið klukkan 13:18 og lenti svo á Reykjavíkurvíkurflugvelli hálftíma síðar. Sjúklingurinn var svo fluttur á Landspítalann með sjúkrabíl,“ segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Til marks um veðurofsann meðan á útkalli þyrlunnar stóð má nefna að flughraði þyrlunnar í mótvindinum á leiðinni til Eyja var 88 hnútar (162 km/klst) en í meðvindinum á bakaleiðinni fór hann upp í allt að 190 hnúta (352 km/klst).
Samkvæmt vindmæli þyrlunnar fóru vindhviður í 35 metra á sekúndu, sem er fárviðrisstyrkur.