Konur í prestastétt búa, líkt og aðrar konur, við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Gerendur eru yfirmenn, samstarfsfólk, sjálfboðaliðar og þau sem nýta sér þjónustu kirkjunnar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem konurnar hafa sent frá sér.
Þær segja jafnframt að allar konur eigi rétt á að starfa í öruggu umhverfi, vera lausar við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun af öllu tagi í sínum störfum. Frásagnir prestvígðra kvenna sem starfa í þjóðkirkjunni sýni svart á hvítu að breytinga er þörf.
Ég var að kveðja hóp eldri borgara fyrir sumarfrí. Einn maðurinn í hópnum greip tækifærið þegar ég hallaði mér að honum til þess að faðma hann, kyssti mig beint á munninn blautum kossi sem hætti ekki fyrr en ég beitti öllu mínu valdi til að ýta honum frá mér. Þá glotti hann. Engin í hópnum virtist taka eftir þessu og ég sagði ekkert.
„Þjóðkirkjan hefur líkt og mörg önnur félagasamtök og stofnanir markað stefnu og búið til úrræði í þessum málum en sögur kvenna í kirkjunni sýna að mikið verk er óunnið þar sem annars staðar í samfélaginu.
Við undirritaðar skorum á biskup Íslands, kirkjuráð, kirkjuþing, presta og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.
Undir þessa yfirlýsingu skrifa konur í prestastétt. Ekki er víst að náðst hafi í allar prestvígðar konur við gerð þessarar áskorunar,“ segir í yfirlýsingunni.
Þegar ég var prestur út á landi var ég eitt sinn í erindum í Reykjavík. Þar sá ég sóknarbarn mitt sem ég þekkti vel. Ég hafði oft verið gestur hans og konu hans. Við tókum tal saman og hann vildi endilega sýna mér nýju íbúðina sem þau hjón voru að kaupa í bænum en ég rakst á hann þar við húsgaflinn. Inn fór ég, þegar ég vildi fara eftir stutta stund tók hann utan um mig og var eitthvað að þreifa á mér og segja óviðeigandi hluti sem ég er búin að loka út úr minninu. Ég reif mig lausa og þaut út. Óhugurinn og ónotin voru eftir og ég var alveg ringluð yfir samhenginu við fjölskyldu hans.
Hægt er að lesa sögurnar í heild sinni hér.
Áður hafa margar starfsstéttir stigið fram og greint frá sambærilegu ofbeldi.
Biskup bregst við
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni í kjölfarið þar sem hún segir kröfu prestvígðra kvenna sanngjarna og eðlilega.