Konur í prestastétt búa, líkt og aðrar konur, við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á vinnustöðum sínum. Gerendur eru yfirmenn, samstarfsfólk, sjálfboðaliðar og þau sem nýta sér þjónustu kirkjunnar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem konurnar hafa sent frá sér.
Þær segja jafnframt að allar konur eigi rétt á að starfa í öruggu umhverfi, vera lausar við kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun af öllu tagi í sínum störfum. Frásagnir prestvígðra kvenna sem starfa í þjóðkirkjunni sýni svart á hvítu að breytinga er þörf.
Ég var að kveðja hóp eldri borgara fyrir sumarfrí. Einn maðurinn í hópnum greip tækifærið þegar ég hallaði mér að honum til þess að faðma hann, kyssti mig beint á munninn blautum kossi sem hætti ekki fyrr en ég beitti öllu mínu valdi til að ýta honum frá mér. Þá glotti hann. Engin í hópnum virtist taka eftir þessu og ég sagði ekkert.
„Þjóðkirkjan hefur líkt og mörg önnur félagasamtök og stofnanir markað stefnu og búið til úrræði í þessum málum en sögur kvenna í kirkjunni sýna að mikið verk er óunnið þar sem annars staðar í samfélaginu.
Við undirritaðar skorum á biskup Íslands, kirkjuráð, kirkjuþing, presta og sóknarnefndir að beita sér fyrir siðbót hvað varðar vinnuumhverfi kvenna, prestvígðra og annarra, í kirkjunni.
Undir þessa yfirlýsingu skrifa konur í prestastétt. Ekki er víst að náðst hafi í allar prestvígðar konur við gerð þessarar áskorunar,“ segir í yfirlýsingunni.
Þegar ég var prestur út á landi var ég eitt sinn í erindum í Reykjavík. Þar sá ég sóknarbarn mitt sem ég þekkti vel. Ég hafði oft verið gestur hans og konu hans. Við tókum tal saman og hann vildi endilega sýna mér nýju íbúðina sem þau hjón voru að kaupa í bænum en ég rakst á hann þar við húsgaflinn. Inn fór ég, þegar ég vildi fara eftir stutta stund tók hann utan um mig og var eitthvað að þreifa á mér og segja óviðeigandi hluti sem ég er búin að loka út úr minninu. Ég reif mig lausa og þaut út. Óhugurinn og ónotin voru eftir og ég var alveg ringluð yfir samhenginu við fjölskyldu hans.
Hægt er að lesa sögurnar í heild sinni hér.
Áður hafa margar starfsstéttir stigið fram og greint frá sambærilegu ofbeldi.
Biskup bregst við
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni í kjölfarið þar sem hún segir kröfu prestvígðra kvenna sanngjarna og eðlilega.
Fulltrúar prestvígðra kvenna afhentu í morgun yfirstjórn þjóðkirkjunnar áskorun, þar sem krafist er breytinga á vinnuumhverfi og -aðstæðum kvenna í kirkjunni. Líkt og konur í öðrum starfsstéttum hafa þær orðið fyrir kynbundinni áreitni, mismunun og jafnvel kynferðisofbeldi í starfi. Ásamt undirritaðri tóku forseti kirkjuþings og framkvæmdastjóri kirkjuráðs við áskoruninni, en henni fylgdu 64 frásagnir í anda #MeToo.
Ég er afar þakklát öllum þeim sem stigið hafa fram, sagt frá sinni reynslu og haldið á lofti kröfunni um heilbrigt og öruggt vinnuumhverfi, sanngirni og virðingu í samskiptum milli fólks. Það er mikilvægt að enginn loki augunum gagnvart þeirri samfélagslegu meinsemd sem kynbundið áreiti og ofbeldi sannarlega er, að því er virðist í öllum kimum samfélagsins
Frásagnir prestvígðra kvenna komu mér ekki á óvart. Ég hef sjálf starfað innan kirkjunnar í nær 40 ár og bæði upplifað og séð ýmislegt á þeim tíma. Hitt er svo öllum ljóst, að kirkjan hefur um langa hríð reynt að vinna úr áreitnis- og ofbeldismálum þar sem sumt hefur tekist vel en annað síður.
Fyrir 20 árum setti kirkjan sér fyrst vinnureglur um meðferð áreitnismála sem upp kynnu að koma. Í tengslum við þær er nú verið að taka upp verklag í viðkvæmum aðstæðum, þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að starfsfólk sæki sérstakt námskeið og fái þekkingu sína vottaða hjá utanaðkomandi sérfræðingum. Þá fer þjóðkirkjan fram á það við starfsfólk og umsækjendur um starf, að þeir heimili kirkjunni að afla upplýsinga úr sakaskrá og þar sem kannað verði hvort þeir hafi gerst brotlegir við barnaverndarlög, nokkra flokka almennra hegningarlaga og lög um ávana- og fíkniefni.
Starfsreglur kirkjunnar fela í sér heildstæða nálgun á málaflokkinn, þar sem mál eru sett í skýran fyrirfram skilgreindan farveg. Markmiðið er að tryggja rétta málsmeðferð hverju sinni og styðja við þolendur, t.d. hvetja þá til að kæra mál til lögreglu séu þau þess eðlis og veita hverjum og einum faglegan stuðning, og eftir atvikum einnig gerendum. Í sumum málum er kveðið á um skilyrðislausa tilkynningarskyldu til yfirvalda, frávísun úr starfi – ýmist tímabundna á meðan rannsókn stendur yfir eða varanlega – svo dæmi séu nefnd. Reglurnar hafa reynst vel en þarfnast stöðugrar rýni, ekki síst hvað varðar forvarnir og fræðslu.
Ég tek hjartanlega undir þá sanngjörnu og eðlilegu kröfu sem prestvígðar konur hafa sett fram. Ég mun leggja mig alla fram við að bæta starfsumhverfi kvenna og samskiptin milli fólks í kirkjusamfélaginu.