Miklar og örar breytingar hafa átt sér stað á uppruna íbúa Norðurlands eystra. Á undanförnum misserum hafa færri erlendir ríkisborgarar verið búsettir á Akureyri en að jafnaði á landinu öllu eða einungis 3,4 prósent íbúa miðað við 1. janúar árið 2017.
Mikil breyting hefur orðið á því en í lok þriðja ársfjórðungs ársins 2017 voru 4 prósent íbúa af erlendu bergi brotnir. Fólki með erlent ríkisfang fjölgaði um 23 prósent frá þriðja ársfjórðungi 2016 til þriðja ársfjórðungs 2017 eða úr 600 í 740 manns.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var á vegum Íslandsbanka.
Í skýrslunni kemur fram að Akureyrarbær hafi tekið við 23 flóttamönnum frá Sýrlandi í janúar 2016 og því skýrist fjölgunin einungis að hluta vegna þess verkefnis.
„Á Húsavík, nánar tiltekið í Norðurþingi, var hlutfall erlendra ríkisborgara hins vegar mun hærra í ársbyrjun 2017 eða 15,5 prósent íbúa sem er umfram landsmeðaltal sem var 9,8 prósent í ársbyrjun 2017. Sprenging hefur orðið í íbúafjölda Húsavíkur á þessu ári. Fólki með erlent ríkisfang fjölgaði um 82,5 prósent frá þriðja ársfjórðungi ársins 2016 til þriðja ársfjórðungs 2017, eða úr 400 í 730 manns sem endurspeglar þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað á Bakka.
Athygli vekur að á sama tíma fækkar fólki í sveitarfélaginu með íslenskt ríkisfang eða um rúmlega einn af hundraði, það er að segja um 30 manns. Ólíklegt er að allir þeir erlendu íbúar sem nú eru skráðir til heimilis í Norðurþingi muni búa þar til frambúðar,“ segir í skýrslunni.
Fjórir af hverjum tíu nýjum útlendingum setjast að í Reykjavík
Kjarninn hefur fjallað um fjöldun fólks af erlendum uppruna á Íslandi en í frétt síðan í nóvember síðastliðnum kemur fram að fjórir af hverjum tíu erlendum ríkisborgurum sem sest hafa að á Íslandi það sem af var árinu 2017 hafi gert það í Reykjavík. Alls hafi erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgað um 5.580 á tæpum fimm árum. Á síðasta ári einu saman fjölgaði þeim um 2.460. Því hafi tæplega helmingur þeirrar fjölgunar sem orðið hefur á erlendum íbúum Reykjavíkur átt sér stað á síðasta ári.
Önnur svæði eru einnig vinsæl á meðal nýrra íbúa landsins sem fæðst hafa í öðrum löndum. Þannig stefnir í að hlutfall erlendra íbúa í Reykjanesbæ verði um eða yfir 30 prósent á allra næstu árum.
Svo eru það sveitarfélögin þar sem útlendingarnir eru sjaldséðir. Af stórum þéttbýliskjörnum landsins sker Garðabær sig úr. Þar eru einungis fjórir af hverjum hundrað íbúum erlendir ríkisborgarar.
Fjölgað um 60 prósent á fimm árum
Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað gífurlega á Íslandi á undanförnum árum. Sú aukning hefur verið sérstaklega mikil í ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 jókst fjöldi þeirra um 6.310. Það er aukning á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi um 21 prósent frá því sem var um þarsíðustu áramót. Frá 2010 til septemberloka 2017 hafði erlendum ríkisborgurum fjölgað um 9.318 í 36.585, eða um 74 prósent.
Þessi hópur nýrra íbúa landsins dreifist ekki jafnt milli sveitarfélaga á landinu. Langflestir setjast að í höfuðborginni Reykjavík. Í lok árs 2012 bjuggu 9.380 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík. Í lok september síðastliðins voru þeir orðnir 14.960 talsins. Þeim hefur því fjölgað um 60 prósent á innan við fimm árum. Langmest hefur aukningin verið þeim tíma sem liðin er af árinu 2017, en erlendum ríkisborgurum sem búa í Reykjavík hefur fjölgað um 2.460 á þeim tíma. Það þýðir að fjórir af hverjum tíu útlendingum sem flytja til landsins það sem af er ári búa í höfuðborginni.
Raunar er líka umtalsverður munur milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar þegar kemur að fjölgun útlendinga. Fjöldi erlendra ríkisborgara sem búa á landsbyggðinni er nú 14.410 og hefur tvöfaldast frá því í byrjun árs 2011. Á höfuðborgarsvæðinu eru útlendingarnir nú 22.290 talsins og hefur fjölgað um 60 prósent á tæplega sjö árum.