Þrjár konur sem starfa hjá Matís sendu nafnlaust bréf til stjórnar fyrirtækisins í kjölfar umræðu í byrjun desember síðastliðins um mótmæli fyrir framan heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur árið 2010.
Segir í bréfinu að tilefni þess sé að þær séu vægast sagt ósáttar við að forstjóri stofnunarinnar, Sveinn Margeirsson, skuli hafa farið fremstur í flokki og að auki staðið að hvatningu og skipulagningu í aðdragandanum, þegar mjög óvægin og afar ósanngjörn aðför hafi verið gerð að kynsystur þeirra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, eins og hafði verið dregið fram í dagsljósið.
Sjöfn Sigurgísladóttir stjórnarformaður Matís segir málið í skoðun og Sveinn segist í samtali við Kjarnann ekki vilja tjá sig um bréfið eða efni þess að svo stöddu.
Ekki boðlegt af forstjóra
„Okkur var umrætt ekki ljóst fyrir. Afsökunarbeiðni í þeim efnum teljum við einungis tilkomna vegna þess að forstjórinn óttast nú um sína stöðu, einungis í ljósi háværrar og nauðsynlegrar umræðu um málaflokkinn. Atvik sem vísað er til ollu viðkomandi miklum og langvarandi miska og bitnaði á ungum fjölskyldumeðlimum, börnum viðkomandi, með afar ósanngjörnum hætti. Við fáum ekki skilið hvaða hugarfar býr að baki slíkri háttsemi, ekki síst gagnvart börnum.
Við fáum ekki séð að þeir sem ganga fram með slíkum hætti, ítrekað og með skipulögðum hætti, séu allt í einu orðnir að betri mönnum og fullir iðrunar og þar með boðlegir í að gegna æðsta embætti í okkar ágætu stofnun og vinnustað. Og þegar málið er skoðað í ljósi þess tíma sem liðinn er, þá kemur upp úr dúrnum að umræddur forstjóri og eiginkona hans hafa beitt sér af miklu offorsi og óbilgirni gagnvart mönnum og málefnum í óskyldum málum, allt síðan umrætt atvikaðist gagnvart henni Steinunni,“ segir í bréfinu.
Enn fremur kemur fram að þeim finnist það í senn sorglegt og niðurlægjandi að slík viðhorf kvenfyrirlitningar og valdníðslu, og skáka í skjóli valdastöðu og friðhelgi sem ríkir um opinberar stjórnunarstöður, skuli gegna æðsta embætti okkar ágætu stofnunar árið 2017.
Þær segja að það hvarfli ekki að þeim að koma fram undir nafn, og er móttakandi beðinn velvirðingar á því. „Við teljum að nafnbirting myndi einfaldlega beinast gegn okkur með skjótum hætti, þegar til hliðsjónar eru hafðir stjórnunarhættir og framkoma sem við höfum nú orðið vitni að og erum upplýstar um í dag.“
Hægt er að lesa bréfið í heild sinni hér.
Stjórnin skoðar málið
Sjöfn Sigurgísladóttir, formaður stjórnar Matís, segir í samtali við Kjarnann að málið sé í skoðun. Þetta hafi einungis komið upp fyrir stuttu og þess vegna sé ekki komin niðurstaða hvort eða hvað verði gert í framhaldinu.
Hún segir enn fremur að stjórnin taki öllum ábendingum sem þessum alvarlega. Þau viti ekki nöfn kvennanna og séu ekki á höttunum eftir þeim.
„Það hefur alltaf verið góður andi hjá Matís og við viljum að svo verði áfram. Starfsemin hefur gengið mjög vel og er mikilvægt að svo verði áfram,“ segir hún og bætir við að engar uppákomur hafi komið í fyrirtækinu og að þau hafi lagt sig í líma við að hafa starfsemina góða. Þeim sé annt um orðsporið.
Þau ætli því að skoða málið vel áður en farið verður lengra með það en þau vilji jafnframt eiga gott samtal við starfsmenn og aðra sem tengjast fyrirtækinu.
Baðst afsökunar
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður Samfylkingarinnar, sagði af sér þingmennsku árið 2010 eftir að hópur mótmælenda hafði safnast saman fyrir framan heimili hennar á hverju einasta kvöldi og krafist þess að hún segði af sér þingmennsku vegna styrkja fyrir prófkjörsbaráttu. Fleiri stjórnmálamenn á borð við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson urðu einnig fyrir aðkasti mótmælenda af sömu ástæðum.
Mótmælin fyrir framan hús Steinunnar Valdísar stóðu yfir í fimm vikur og sagði hún í fyrrnefndu viðtali á mbl.is að forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson og bræður hans Hlaupagarpar hafi verið fyrir framan gluggana hjá henni í þrjár vikur. „Þar var einnig Björn Þorri Viktorsson lögmaður kvöld eftir kvöld vel klæddur í kraftgalla með marga af sínum skjólstæðingum. Til viðbótar voru margir skjólstæðingar Útvarps Sögu o.fl.,“ sagði hún. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís sagðist sjá mikið eftir þátttöku sinni í mótmælunum á sínum tíma í viðtali við Eyjuna í maí 2014.
Aðspurður um þátttöku sína í mótmælunum sagði Sveinn að skiljanlega hefði mikil reiði ríkt í samfélaginu á þessum tíma. Hann sagði ennfremur að hann hefði ekki átt aðild að máli í öll þau skipti sem mótmæli áttu sér stað á heimilum stjórnmálamanna. Hann bætti því við að í hita leiksins hefði ekki verið ekki verið hugsað út í að verið væri að gera atlögu að einkaheimili fólks. Verst hefði honum þótt sá misskilningur að mótmælin hefðu beinst sérstaklega að konum.
„Ég hef beðið hana afsökunar. Mér finnst leiðinlegt ef fólk heldur eitthvað ranglega um mig en ég ætla ekki að vera í einhverri pólitík með það,“ sagði Sveinn og bætti við að þetta hefði ekki verið það sem hann er mest stoltur af í lífinu.