Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarps um breytingar á lögum um almannatryggingar. Tryggingastofnun ríkisins getur, ef af verður, ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
Kjarninn fjallaði um mál Bergþóru Heiðu Guðmundsdóttur, sem gjarnan er kölluð Heiða, en hún missti eiginmann sinn með börn á umönnunaraldri á framfæri. Hún gagnrýnir kerfið og bendir á það misræmi sem sjá má í því. Hann segir að þetta bitni mest á börnum látinna foreldra og telur hún að þau standi ekki jafnvígis öðrum börnum.
Aðeins þeir með gott bakland geta staðið undir kostnaði
Heiða segir að erfitt geti reynst að fjármagna einsömul tannréttingar, fermingar, bílpróf og þess háttar útgjöld en ólíkt einstæðum foreldrum þá getur hún ekki sótt um sérstök framlög þegar það á við. Henni finnst að með þessu sé verið að mismuna börnum og að Tryggingastofnun túlki lögin þannig að þau eigi ekki rétt á frekari framlögum. Henni finnst mikið jafnréttismál að allir skulu vera jafnir fyrir lögum en þegar börn ekkna eða ekkja eiga í hlut þá sé það ekki raunin.
Þannig sé verið að mismuna börnunum og hegna þeim fyrir aðstæður þeirra. Foreldri í þessum aðstæðum geri iðulega sitt besta en fái mjög takmarkaða hjálp frá ríkinu. Aðeins þeir heppnu með gott bakland og há laun geti staðið undir þessum mikla kostnaði sem fylgir því að sjá fyrir börnum.
Heiða veit um dæmi þess að fólk, sem misst hefur maka sína, hafi orðið veikt og þurft að treysta á örorku í framhaldinu og að peningaáhyggjur hafi reynst erfiðar eftir sorg og missi.
Kom mikið á óvart
Silja Dögg segir í samtali við Kjarnann að kveikjan að þessu frumvarpi hafi verið samskipti við konu í kosningabaráttu árið 2013. Hún hafi sagt Silju Dögg frá aðstæðum sínum og að hennar eigin sögn kom þetta henni mikið á óvart. Hún hafi alltaf gert ráð fyrir því að kerfið myndi grípa fólk í þessum aðstæðum.
Við undirbúning hafi hún beðið lögfræðing um hjálp til að búa til frumvarp um barnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Þau tóku lagatexta um meðlög sér til fyrirmyndar og segir Silja Dögg að með því sé jöfnuð staða milli þeirra sem fá meðlag og þeirra sem eru í aðstæðum á borð við fólk sem misst hefur maka sína með börn á umönnunaraldri.
Að sögn Silju Daggar hefur framvarpinu verið vel tekið. Hún telur þetta þarft málefni þrátt fyrir að hópur fólks sem þetta nær til sé ekki stór. Fólkið innan hans sé aftur á móti að glíma við erfiða hluti og sé því ekki í stakk búið að berjast fyrir rétti sínum.
Hún segir enn fremur að viðbrögð hinna flokkanna á þingi hafi verið góð. Flestir hafi viljað taka þátt og séu meðflutningsmenn úr öllum flokkum nema Viðreisn og Miðflokknum.