Hæstiréttur í Bretlandi leitar nú að tveimur nýjum dómurum, sem og nýjum varaforseta.
Í starfsauglýsingunni er sérstaklega tekið fram að leitað sé eftir margvíslegri starfsreynslu, mismunandi sérþekkingu og bakgrunni hjá umsækjendum. Hún er því óvenjuleg að því leiti að leitast á sérstaklega eftir því að ná fram meira jafnvægi í fyrrgreindum þáttum sem og meiri fjölbreytni meðal dómara dómstólsins.
Af tólf dómurum við dómstólinn sem nú gegna embætti eru aðeins tvær konur, Lady Hale og Lady Black. Enginn dómari er dökkur á hörund eða af öðrum uppruna en breskum. Yfirgnæfandi meirihluti dómara hefur hingað til verið hvítir karlmenn og níu af tólf úr einkaskólum.
Dómstóllinn telur mikilvægt að dómarar séu fjölbreyttari hópur sem spegli samfélagsgerðina betur. Fyrrverandi forseti réttarins, Lord Neuberger, sagði árið 2016, þegar hann tilkynnti að hann hyggðist setjast í helgan stein, áætlun réttarins um að auka fjölbreytni innan hans.
Þar var sérstaklega tekið fram að breyta ætti hvernig auglýst væri eftir dómurum, breyta þannig orðalaginu og auglýsa víðar til að ná til sem flestra. Þannig yrðu aðilar sem uppfylla hæfisskilyrði hvattir til að sækja um sem áður hefðu ef til vill ekki gert það. Þá verður það skoðað sérstaklega hvort hægt sé að gera vinnutíma dómara sveigjanlegan.
Á Íslandi eru átta Hæstaréttardómarar, þar af aðeins ein kona. Af 44 fyrrverandi Hæstaréttardómurum eru aðeins fjórar konur. Ekkert þeirra er af erlendum uppruna.