Auður Jónsdóttir rit- og pistlahöfundur var í dag sýknuð í meiðyrðamáli sem Þórarinn Jónasson, landeigandi í Laxnesi, oft kallaður Póri í Laxnesi, höfðaði á hendur henni.
Málið var höfðað vegna aðsendrar greinar sem Auður birti á Kjarnanum í júní árið 2016. Í greininni, sem var stuðningsgrein fyrir framboð Andra Snæs Magnasonar til forseta Íslands, var meðal annars fjallað um umhverfismál í Mosfellsdalnum, þar sem Auður ólst upp.
Meðal þess sem Þórarinn gerði kröfu um var að ummæli Auðar um dýraníð og náttúruníð á svæðinu væru dæmd dauð og ómerk sem og fleiri ummæli eins og : „Körlum og kerlingum eins og Póra í Laxnessi sem eygja ekki náttúruna heldur bara peninga. Það sem hefur lifað og dafnað í þúsundir ára er skemmt á augabragði svo firrt fólk geti keypt sér nýtt sófasett eða farið í skemmtisiglingu, gott ef ekki stofnað póstkassafyrirtæki á suðrænni eyju og sent þangað féð sem ætti mér réttu að vera burðastoð samfélagsins.“
Þá varð gerð krafa um að Auður yrði dæmd til refsingar fyrir að hafa viðhaft og birt opinberlega á vefmiðli Kjarnans ummælin og að greiða eina milljón króna í miskabætur með dráttarvöxtum, hálfa milljón fyrir birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í dagblaði og tveimur vefmiðlum auk málskostnaðar Þórarins.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ummæli Auðar um ástand jarðarinnar að Laxnesi séu ekki úr lausu lofti gripin og tilhæfulaus líkt og Þórarinn hélt fram. Vitnað er til bréfa frá starfsmanni Landgræðslu Íslands, Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og gagna frá nefnd á vegum Mosfellsbæjar þar sem alvarlegum áhyggjum af ástandi jarðarinnar er lýst.
Ummæli Auðar eru talin vera liður í almennri þjóðfélagsumræðu, með því að vekja athygli á þeim verðmætum sem í náttúru landsins felast og því tjóni sem af því geti hlotist til lengri tíma ef fjárhagslegir stundarhagsmunir ganga framar því að halda uppi vörnum fyrir náttúru landsins.
Dómurinn segir að lokum að ekki verði talið að Auður hafi í grein sinni viðhaft móðgun eða ærumeiðandi aðdróttun í garð Þórarins eða borið slíka aðdróttun út, né viðhaft óviðurkvæmileg ummæli. Hún er því sýknuð sem fyrr segir af öllum kröfum auk þess sem Þórarni var gert að greiða henni 1,5 milljónir í málskostnað.