Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að í aðgerðaáætlun og forgangsröðun næstu ára að unnið verði á markvissan hátt að uppbyggingu fagþekkingar á meðal starfsfólks velferðarsviðs um þjónustu við innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk með sérstakri fræðslu. Þá hefur verið samþykkt að fela sviðinu að móta tillögu um að ýta úr vör verkefni til að styrkja foreldra af erlendum uppruna í uppeldishlutverki sínu og styðja við mæður sem eru flóttafólk til að komast í vinnu.
Þetta segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, í svari við fyrirspurn Kjarnans um aðgerðir sem borgin ætlar að ráðast í til að stöðu kvenna af erlendum uppruna og fjölga tækifærum þeirra til að komast úr erfiðum aðstæðum.
Kerfisveggurinn sem eykur á vanda kvenna af erlendum uppruna
Í lok janúar birti Kjarninn #metoo frásagnir kvenna af erlendum uppruna. Þar var greint frá hrottalegu kynferðisofbeldi og allskyns áreitni sem margar konur úr hópnum hafa orðið fyrir.
Í frásögnum þeirra komu líka fram aðrir fletir en hafa komið fram í sambærilegum sögum íslenskra kvenna. Margar kvennanna lýstu því í sögum sínum að þær lentu í kerfislegum vandamálum við að losna úr sínum aðstæðum.
Ætla að fylgja málinu eftir
Regína segir að Reykjavíkurborg ætli að fylgja málinu eftir. Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður og sú sem hélt utan um frásagnir kvennanna, hefur verið beðin um að aðstoða við mótun aðgerðaráætlunar fyrir velferðarsvið til að mæta stöðunni sem er uppi.
Regína segir að velferðarráð hafi samþykkt í aðgerðaáætlun og forgangsröðun næstu ára að unnið verði á markvissan hátt að uppbyggingu fagþekkingar á meðal starfsfólks velferðarsviðs um þjónustu við innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk með sérstakri fræðslu. Þá verði velferðarsviði falið að móta tillögu um að ýta úr vör verkefni til að styrkja foreldra af erlendum uppruna í uppeldishlutverki sínu og styðja við mæður sem eru flóttafólk til að komast í vinnu. „Þarna horfum við til þess að þróa þjónustu sérstakra menningarmiðlara, sem eiga að koma á tengslum á milli íslensks samfélag og þeirra með því að efla skilning og umburðarlyndi gagnvart ólíkum menningarheimum. Þá á einnig að finna leiðir til að tryggja íslenskuþjálfun í gegnum vinnu.“
Átak í verkferlum
Að sögn Regínu þarf að gera átak í því að koma öllum verkferlum vegna áreitni og ofbeldis á vinnustöðum á erlend tungumál. „Mannréttindaskrifstofa borgarinnar hefur gefið út mikið efni sem er dreift til innflytjenda sem eru viðskiptavinir velferðarsviðs. Þar er m.a. fjallað um ofbeldi á heimilum, samskipti við börn o.fl. Auk þessa eru í gangi ýmis smærri verkefni á þjónustumiðstöðvum sem miða að því að efla konur af erlendum uppruna og auka tengsl þeirra við nærsamfélagið. Lítið en gott dæmi um þetta er t.d. sundnámskeið sem var haldið í Breiðholti í fyrra fyrir konur af erlendum uppruna og var sérsniðið að þörfum þeirra. Þessi mál verða tekin föstum tökum í vinnu með öllum forstöðumönnum sviðsins sem eru á annað hundrað talsins.“