Tveir listar til framboðs til formanns stjórnar í Eflingu voru samþykktir á fundi kjörstjórnar sem haldinn var í morgun. Magnús Norðdahl, yfirmaður kjörstjórnar, staðfestir þetta í samtali vð Kjarnann. Sólveig Anna Jónsdóttir og Ingvar Vigur Halldórsson gefa kost á sér til formanns stjórnar stéttarfélagsins Eflingar.
Stjórnarkjör mun fara fram í byrjun mars næstkomandi, samkvæmt ákvörðun kjörstjórnar.
Fráfarandi formaður Sigurður Bessason bauð sig ekki fram til endurkjörs eftir að hafa gengt formennsku í um tvo áratugi.
Kjörstjórn Eflingar hélt sinn fyrsta fund í fyrradag vegna komandi stjórnarkjörs í félaginu. Fundinn sátu einnig umboðsmenn þeirra tveggja lista sem fram hafa verið lagðir. Á fundinum var ákveðið að setja þegar í stað gang vinnu til að ganga úr skugga um lögmæti listanna. Listarnir voru samþykktir í dag eins og fyrr segir.
Sólveig Anna Jónsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Nóaborg í Reykjavík, gefur kost á sér til formanns en hún tilkynnti framboðið þann 29. janúar síðastliðinn.
Ingvar Vigur Halldórsson gefur einnig kost á sér sem nýr formaður og stendur á vefsíðu Eflingar að hann sé sá frambjóðandi sem er með einróma stuðning uppstillingarnefndar, stjórnar og trúnaðarráðs félagsins.