Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari krefst þess að Sandra Baldvinsdóttir dómari í máli þar sem Benedikt Bogason, núverandi hæstaréttardómari, hefur stefnt honum fyrir meiðyrði, víki sæti vegna vanhæfis. Málflutningur um hvort dómaranum beri að víkja sæti vegna þessa fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
„Dómsmorð“
Aðdragandi málsins er sá að í bók sinni „Með lognið í fangið - um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ sem Jón Steinar gaf út í nóvember í fyrra gagnrýnir hann Hæstarétt harðlega og fullyrðir að dómurinn hafi brugðist þjóðinni við meðferð dómsmála í kjölfar efnahagshrunsins.
Í kjölfarið stefndi Benedikt Jóni fyrir meiðyrði og gerir kröfu upp á tvær milljónir auk vaxta í miskabætur sem hann hyggst láta renna til góðgerðarmála vinnist málið, sem og um málskostnað.
Ummælin sem Benedikt vill að verði dæmd dauð og ómerk snúast meðal annars um það sem Jón Steinar kallar ítrekað í bókinni „dómsmorð“, til dæmis að við meðferð Hæstaréttar á máli Baldurs Gunnlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik árið 2012, hafi verið framið „það sem kallað hefur verið dómsmorð“ og að dómararnir hafi vitað eða hlotið að vita að sá dómur hafi ekki staðist hlutlausa lagaframkvæmd, ásamt öðru.
Vanhæf vegna skoðana formanns Dómarafélagsins?
Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Jóns Steinars, gerði þá kröfu að dómarinn í málinu Sandra Baldvinsdóttir víki vegna vanhæfis á þeim grundvelli að hún sé í stjórn Dómarafélags Íslands og á síðasta aðalfundi félagsins, sem og í fjölmiðlum eftir fundinn, hafi þáverandi formaður þess, Skúli Magnússon, sett fram sjónarmið sem séu þess valdandi að Jón Steinar geti dregið óhlutdrægni hennar í efa.
Gestur vísaði einnig í orð Skúla Magnússonar í kvöldfréttum RÚV sama dag, þar sem hann sagði að ef fjölmiðlar eða aðrir sæju ekki um að hreinsa svona óhróður upp þannig að hann dæmi sig í raun og veru sjálfur þá hljóti dómarar á einhverjum tímapunkti að grípa til viðbragða sem þeir hafi þá samkvæmt lögum og „ég lýsi ákveðnum skilningi á því,“ sagði Skúli. Skúli gagnrýndi einnig að Jón Steinar sjálfur hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu máls Baldurs í Hæstarétti þó að hann hafi sjálfur lýst sig vanhæfan. „Sú atburðarás sem hann hefur sjálfur lýst og sú aðkoma hans sjálfs sem hann hefur lýst í fjölmiðlum hún felur auðvitað í sér eitthvað það skýrasta brot á siðareglum dómara sem hægt er að hugsa sér.“
Gestur sagði Söndru hafa setið í stjórn félagsins undir forystu Skúla sem formanns og geri enn eftir formannsskipti sem urðu á aðalfundinum. Hann viti ekki til þess að Sandra hafi gert neinar athugasemdir við framangreind orð Skúla Magnússonar, hvorki á aðalfundinum sjálfum né opinberlega síðar á öðrum vettvangi og því hafi Jón réttmætar ástæður til að ætla að orð Skúla endurspegli viðhorf þeirra sem með honum sátu í stjórn félagsins, þar með talin Sandra.
Dómstólasýslan skiptir fé milli dómstólanna
Að auki sitji stefnandinn, Benedikt Bogason í stjórn nýrrar stjórnsýslustofnun sem kallast dómstólasýslan og veitir henni formennsku. Hún annast stjórnsýslu dómstólanna og samkvæmt lögum um stofnunina skiptir stjórn dómstólasýslunnar fé á milli héraðsdómstólanna og komi fram gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum í þágu dómstólanna sameiginlega. Gestur sagði það þannig dómstólasýslunnar, með Benedikt sem formann, að skipta fjárveitingum milli héraðsdómstólanna og ákveða hvaða dómstóll fengi hvaða upphæðir. Þannig væri þetta mál orðið skrítið og deilurnar stæðu mjög nærri öllum sem að því kæmu. Í þessu ljósi hefði Jón Steinar réttmæta ástæðu til að draga það í efa að allt ferlið væri hlutlaust eins og vera bæri.
Í lokaorðum sínum fyrir réttinum sagði Gestur: „þegar formaður félags dómara stendur upp á aðalfundi og ávarpar fundinn og er að tala með þeim hætti sem þarna var gert er þá maður sem er settur undir það að dómarinn í málinu eigi að vera samstjórnarmaður þess sem tók afstöðu til málshöfðunarinnar með þeim hætti sem formaðurinn gerði, hefur hann réttmæta ástæðu til að óttast að ekki sé um óhlutdrægan dómara að ræði. Þessari spurningu verður dómarinn sjálfur að svara,“ sagði Gestur.
Sandra ekki samsömuð Skúla Magnússyni
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður Benedikts krafðist þess að kröfu Gests yrði hafnað og að dómarinn sæti áfram. Hann sagði kröfu Gests langsótta, dómurinn væri sjálfstæður í störfum sínum samkvæmt stjórnarskrá og lögum og skipað hafi verið með lögformlegum hætti í embætti á sínum tíma. Hann sagði að Sandra yrði ekki samsömuð með Skúla Magnússyni, fyrrverandi formanni dómararfélagsins, með þeim hætti sem gert sé af hálfu stefnda Jóns Steinars. „Hvað þá að hinn virðulegi dómur verði gerður ábyrgur fyrir orðum Skúla Magnússonar eða að á hinum virðulega dómi hvíli athafnaskylda til að andmæla þeim orðum sem Skúli gerði á aðalfundi félagsins,“ sagði Vilhjálmur og sagði þetta liggja í „augun úti“ og vísaði í texta hljómsveitarinnar Purrkur Pillnikk í laginu Augun úti - sem létti furðu lítið andrúmsloftið í dómsalnum.
Vilhjálmur sagði dómarann bera ábyrgð á sínum eigin orðum, en ekki orðum annarra og ekkert hafi verið fram komið hvað varðar kröfu eða rökstuðning sem bendi til þess eða styðji að dómarinn sé ekki hæfur til að fara með þetta tiltekna mál. Hann lagði sérstaka áherslu á að í hæfisreglum felist ekki einungis sú skylda að dómari víki sæti ef hann er vanhæfur, heldur líka sú skylda til þess að fara með mál og víkja ekki sæti ef viðkomandi dómari er hæfur.
„Ennfremur er því mótmælt að Skúli Magnússon hafi í umrætt skipti verið að lýsa skoðunum stjórnar eða annarra stjórnarmanna í umrætt skipti,“ sagði Vilhjálmur og bætti því við að Skúli væri sjálfstæð persóna sem njóti málfrelsis og verði einn að bera ábyrgð á skoðunum sínum. Hann sagði að stilla mætti því þannig upp að hefði komið til þess að Skúla sjálfum hefði verið úthlutað þessu máli hefði mátt draga hæfi hans til þess að fara með málið hugsanlega í efa, en alls ekki Söndru.
Vilhjálmur sagðist ekki geta séð að starf stefnanda Benedikts sem formaður dómstólasýslunnar hafi nokkur áhrif í málinu, það hafi ekki verið rökstutt með fullnægjandi hætti hvers vegna það starf hans ætti að leiða til vanhæfis dómarans, sagði það órökstutt með öllu.
Vilhjálmur sagði að dómurinn sé fullkomlega hæfur og alls ekki vanhæfur í skilningi bæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, gerði þá kröfu að dómarinn Sandra dæmi málið og að kröfu Gests yrði hafnað.
Dómarinn sjálfur, Sandra Baldvinsdóttir, mun ákvarða hæfi sitt til að sitja áfram eða ekki sem dómari og má búast við niðurstöðu í málinu á næstu dögum.