Jón Steinar vill að dómari í meiðyrðamáli víki

Jón Steinar Gunnlaugsson vill að dómarinn í meiðyrðamáli Benedikts Bogasonar gegn honum víki sæti vegna vanhæfis. Vanhæfið á að vera tilkomið vegna setu dómarans í stjórn Dómarafélagsins með Skúla Magnússyni sem hefur tjáð sig afgerandi um málið.

Dómsmál
Auglýsing

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari krefst þess að Sandra Baldvinsdóttir dómari í máli þar sem Benedikt Bogason, núverandi hæstaréttardómari, hefur stefnt honum fyrir meiðyrði, víki sæti vegna vanhæfis. Málflutningur um hvort dómaranum beri að víkja sæti vegna þessa fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

„Dómsmorð“

Aðdragandi málsins er sá að í bók sinni „Með lognið í fangið - um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ sem Jón Steinar gaf út í nóvember í fyrra gagnrýnir hann Hæstarétt harðlega og fullyrðir að dómurinn hafi brugðist þjóðinni við meðferð dómsmála í kjölfar efnahagshrunsins.

Í kjölfarið stefndi Benedikt Jóni fyrir meiðyrði og gerir kröfu upp á tvær milljónir auk vaxta í miskabætur sem hann hyggst láta renna til góðgerðarmála vinnist málið, sem og um málskostnað.

Ummælin sem Benedikt vill að verði dæmd dauð og ómerk snúast meðal annars um það sem Jón Steinar kallar ítrekað í bókinni „dómsmorð“, til dæmis að við meðferð Hæstaréttar á máli Baldurs Gunnlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, sem dæmdur var í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik árið 2012, hafi verið framið „það sem kallað hefur verið dómsmorð“ og að dómararnir hafi vitað eða hlotið að vita að sá dómur hafi ekki staðist hlutlausa lagaframkvæmd, ásamt öðru.

Vanhæf vegna skoðana formanns Dómarafélagsins?

Gestur Jónsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Jóns Steinars, gerði þá kröfu að dómarinn í málinu Sandra Baldvinsdóttir víki vegna vanhæfis á þeim grundvelli að hún sé í stjórn Dómarafélags Íslands og á síðasta aðalfundi félagsins, sem og í fjölmiðlum eftir fundinn, hafi þáverandi formaður þess, Skúli Magnússon, sett fram sjónarmið sem séu þess valdandi að Jón Steinar geti dregið óhlutdrægni hennar í efa.

Auglýsing
Í ræðu sinni á aðalfundinum, sem haldinn var þann 24. nóvember 2017, sagði Skúli meðal annars að Jón Steinar hafi verið einn þeirra sem harðast hafi gengið fram í umræðu í fjölmiðlum um fjármál dómara. „Hvort Jón Steinar tók þátt í því að skipuleggja þessar aðgerðir frá grunni eða hvort hann samsamaði sig þeim, þegar hann varð þess áskynja, verður hann að svara sjálfur fyrir. Hver og einn getur einnig svarað því hvort og með hvaða hætti framganga Jóns Steinars var samræmanleg siðferðislegum skyldum hans sem starfandi lögmanns sem og skyldum hans sem fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands. Ekki síst ætti Jón Steinar að reyna að gera það sjálfur,“ sagði Skúli. Um dómsmálið sem Benedikt hafði þá þegar efnt til gegn Jóni Steinari sagði Skúli að ekki væri furðulegt þótt tiltekinn dómari, þ.e. Benedikt, hafi misst þolinmæðina og ákveðið að nota það úrræði sem lögin bjóða honum, að höfða meiðyrðamál vegna alvarlega ávirðinga um störf hans og annarra dómara í tilteknu dómsmáli, í ljósi þess að dómarar séu í afar þröngri stöðu til að tjá sig opinberlega og verjast ómálefnalegum málflutningi og röngum ásökunum. „Og auðvitað má gagnrýna dómstóla og úrlausnir þeirra og jafnvel dómarana sjálfa. Það er hins vegar munur á gagnrýnni umræðu og svo hreinni niðurrifsstarfsemi.“

Gestur vísaði einnig í orð Skúla Magnússonar í kvöldfréttum RÚV sama dag, þar sem hann sagði að ef fjölmiðlar eða aðrir sæju ekki um að hreinsa svona óhróður upp þannig að hann dæmi sig í raun og veru sjálfur þá hljóti dómarar á einhverjum tímapunkti að grípa til viðbragða sem þeir hafi þá samkvæmt lögum og „ég lýsi ákveðnum skilningi á því,“ sagði Skúli. Skúli gagnrýndi einnig að Jón Steinar sjálfur hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu máls Baldurs í Hæstarétti þó að hann hafi sjálfur lýst sig vanhæfan. „Sú atburðarás sem hann hefur sjálfur lýst og sú aðkoma hans sjálfs sem hann hefur lýst í fjölmiðlum hún felur auðvitað í sér eitthvað það skýrasta brot á siðareglum dómara sem hægt er að hugsa sér.“

Gestur sagði Söndru hafa setið í stjórn félagsins undir forystu Skúla sem formanns og geri enn eftir formannsskipti sem urðu á aðalfundinum. Hann viti ekki til þess að Sandra hafi gert neinar athugasemdir við framangreind orð Skúla Magnússonar, hvorki á aðalfundinum sjálfum né opinberlega síðar á öðrum vettvangi og því hafi Jón réttmætar ástæður til að ætla að orð Skúla endurspegli viðhorf þeirra sem með honum sátu í stjórn félagsins, þar með talin Sandra.

Dómstólasýslan skiptir fé milli dómstólanna

Að auki sitji stefnandinn, Benedikt Bogason í stjórn nýrrar stjórnsýslustofnun sem kallast dómstólasýslan og veitir henni formennsku. Hún annast stjórnsýslu dómstólanna og samkvæmt lögum um stofnunina skiptir stjórn dómstólasýslunnar fé á milli héraðsdómstólanna og komi fram gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum í þágu dómstólanna sameiginlega. Gestur sagði það þannig dómstólasýslunnar, með Benedikt sem formann, að skipta fjárveitingum milli héraðsdómstólanna og ákveða hvaða dómstóll fengi hvaða upphæðir. Þannig væri þetta mál orðið skrítið og deilurnar stæðu mjög nærri öllum sem að því kæmu. Í þessu ljósi hefði Jón Steinar réttmæta ástæðu til að draga það í efa að allt ferlið væri hlutlaust eins og vera bæri.

Í lokaorðum sínum fyrir réttinum sagði Gestur: „þegar formaður félags dómara stendur upp á aðalfundi og ávarpar fundinn og er að tala með þeim hætti sem þarna var gert er þá maður sem er settur undir það að dómarinn í málinu eigi að vera samstjórnarmaður þess sem tók afstöðu til málshöfðunarinnar með þeim hætti sem formaðurinn gerði, hefur hann réttmæta ástæðu til að óttast að ekki sé um óhlutdrægan dómara að ræði. Þessari spurningu verður dómarinn sjálfur að svara,“ sagði Gestur.

Sandra ekki samsömuð Skúla Magnússyni

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður Benedikts krafðist þess að kröfu Gests yrði hafnað og að dómarinn sæti áfram. Hann sagði kröfu Gests langsótta, dómurinn væri sjálfstæður í störfum sínum samkvæmt stjórnarskrá og lögum og skipað hafi verið með lögformlegum hætti í embætti á sínum tíma. Hann sagði að Sandra yrði ekki samsömuð með Skúla Magnússyni, fyrrverandi formanni dómararfélagsins, með þeim hætti sem gert sé af hálfu stefnda Jóns Steinars. „Hvað þá að hinn virðulegi dómur verði gerður ábyrgur fyrir orðum Skúla Magnússonar eða að á hinum virðulega dómi hvíli athafnaskylda til að andmæla þeim orðum sem Skúli gerði á aðalfundi félagsins,“ sagði Vilhjálmur og sagði þetta liggja í „augun úti“ og vísaði í texta hljómsveitarinnar Purrkur Pillnikk í laginu Augun úti - sem létti furðu lítið andrúmsloftið í dómsalnum.

Vilhjálmur sagði dómarann bera ábyrgð á sínum eigin orðum, en ekki orðum annarra og ekkert hafi verið fram komið hvað varðar kröfu eða rökstuðning sem bendi til þess eða styðji að dómarinn sé ekki hæfur til að fara með þetta tiltekna mál. Hann lagði sérstaka áherslu á að í hæfisreglum felist ekki einungis sú skylda að dómari víki sæti ef hann er vanhæfur, heldur líka sú skylda til þess að fara með mál og víkja ekki sæti ef viðkomandi dómari er hæfur.

„Ennfremur er því mótmælt að Skúli Magnússon hafi í umrætt skipti verið að lýsa skoðunum stjórnar eða annarra stjórnarmanna í umrætt skipti,“ sagði Vilhjálmur og bætti því við að Skúli væri sjálfstæð persóna sem njóti málfrelsis og verði einn að bera ábyrgð á skoðunum sínum. Hann sagði að stilla mætti því þannig upp að hefði komið til þess að Skúla sjálfum hefði verið úthlutað þessu máli hefði mátt draga hæfi hans til þess að fara með málið hugsanlega í efa, en alls ekki Söndru.

Vilhjálmur sagðist ekki geta séð að starf stefnanda Benedikts sem formaður dómstólasýslunnar hafi nokkur áhrif í málinu, það hafi ekki verið rökstutt með fullnægjandi hætti hvers vegna það starf hans ætti að leiða til vanhæfis dómarans, sagði það órökstutt með öllu.

Vilhjálmur sagði að dómurinn sé fullkomlega hæfur og alls ekki vanhæfur í skilningi bæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, gerði þá kröfu að dómarinn Sandra dæmi málið og að kröfu Gests yrði hafnað.

Dómarinn sjálfur, Sandra Baldvinsdóttir, mun ákvarða hæfi sitt til að sitja áfram eða ekki sem dómari og má búast við niðurstöðu í málinu á næstu dögum.

Tekist á um dómafordæmi

Gestur vís­aði máli sínu til stuðn­ings til tveggja dóma máli sínu til stuðn­ings, ann­ars vegar máls Pét­urs Sig­urðs­sonar gegn Íslandi fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu, sem sneri að van­hæfi dóm­ara. Þar segir í nið­ur­stöðu dóms­ins að spurn­ing­unni um hvort óhlut­drægni sé fyrir hendi beri bæði að svara á hug­lægum grund­velli, þ.e. á grund­velli per­sónu­legrar sann­fær­ingar dóm­ara í til­teknu máli, og á hlut­lægum grund­velli, þ.e. með athugun á hvort aðstæður hafi verið þannig að úti­loka mætti að óhlut­drægni dóm­ar­ans verði með réttu dregin í efa. Ákvarða verði, án nokk­urs til­lits til gerða dóm­ar­ans, hvort fyrir hendi séu atvik sem kunni að vekja vafa um óhlut­drægni hans. Ásýndin ein kunni jafn­vel að öðl­ast nokkuð mik­il­vægi. „Það sem er hér í húfi er það traust, sem dóm­stólar í lýð­ræð­is­þjóð­fé­lagi verða að vekja meðal almenn­ings. Þess vegna verður hver sá dóm­ari að, sem með réttu er unnt að óttast að ekki sé óhlut­dræg­ur, að víkja sæt­i,“ segir í dómn­um. Þetta feli í sér að að afstaða við­kom­andi máls­að­ila sé mik­il­væg við ákvörðun á því hvort með réttu megi ótt­ast um óhlut­drægni ákveð­ins dóm­ara í ákveðnu máli, þótt ekki sé hún afger­andi. Hið afger­andi atriði er hvort telja megi þann ótta hlut­lægt séð rétt­mæt­an.

Hins vegar vís­aði Gestur til dóms Hæsta­réttar frá 2014 þar sem þess var kraf­ist að með­dóm­ari í ákveðnu máli viki vegna van­hæf­is. Dóm­ar­inn, sem var lektor við við­skipta­fræði­deild Háskóla Íslands, hafði í fyr­ir­lestrum sínum og glærum fjalla um fram­ferði end­ur­skoð­enda í aðdrag­anda hruns­ins, en ákærðu voru allir end­ur­skoð­end­ur. Hæsti­réttur taldi að hann hefði óbeint verið að ræða ákærðu, sem störf­uðu allir hjá sama end­ur­skoð­enda­fyr­ir­tæk­inu. Gagn­rýni hans hefði verið hvöss og taldi rétt­ur­inn að í þeim fælist áfell­is­dómur yfir störfum ákærðu og var honum gert að víkja sæti í mál­inu. Gestur sagði þetta sam­bæri­legt því máli sem um ræð­ir, for­maður dóm­ara­fé­lags­ins hefði flutt ræðu sem aðgengi­leg væri almenn­ingi með sama hætti og glærur kenn­ar­ans og hefðu báðir varn­ar­að­ilar í báðum þessum málum því rétt­mæta ástæðu til að draga óhlut­drægni dóm­ara mál­anna í efa.

Vil­hjálmur vís­aði þessum sam­an­burði Gests á bug og sagði hvor­ugan dóm­inn eiga við í þessu máli.

Í því fyrra, hjá Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu, hafi verið um að ræða van­hæfi dóm­ar­ans vegna fjár­hags­mála hans sjálfs og maka, þ.e. fjár­hags­lega hags­muni sem vörð­uðu dóm­ar­ann sjálf­an.

Hið sama eigi við um síð­ari dóm­inn hjá Hæsta­rétti hafi það verið með­dóms­mað­ur­inn sjálfur sem vís­aði í ákveðin orð sem urðu til þess að hugs­an­lega hafi mátt draga óhlut­drægni hans í efa.

„Ef það á að bera þessi til­vik sam­an, setja eitt­hvað sama­sem­merki á milli þeirra þá er það gert með Skúla Magn­ús­syni, ekki þann dóm­ara sem fer með þetta mál,“ sagði Vil­hjálmur og ítrek­aði að það vanti alla teng­ingu þess­ara dóma við máls­at­vik þessa máls.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja og sonur hans, Baldvin Þorsteinsson, er yfir Evrópuútgerð Samherja.
Norskur ráðherra segist ekki sjá ástæðu til að hjálpa Samherja að safna meiri kvóta
Norsk stjórnvöld hafa gripið formlega til aðgerða vegna tilraunar Samherja til að komast yfir aukin fiskveiðikvóta þar í landi. Reglur verða hertar og fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi þar í landi verða bundnar sérstakri heimild.
Kjarninn 9. maí 2021
Women Empowerment – bók eftir Eddu Falak
„Kynþokki er allavega og við ættum ekki að vera hræddar við að sýna hann“
Edda Falak safnar nú fyrir bók sem ber nafnið „Women Empowerment“ á Karolina Fund.
Kjarninn 9. maí 2021
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent