Fjöldi þeirra sem ganga í hjónaband hjá sýslumanni hefur nær tvöfaldast frá árinu 2013. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns Pírata um fjölda hjónavígslna.
Þannig giftu tæplega 640 sig hjá sýslumanni árið 2013 og stóð sá fjöldi nokkurn veginn í stað næstu tvö árin eða til árins 2016 þegar tæplega þúsund hjónavígslur fóru fram með þessum hætti og árið 2017 var fjöldinn kominn upp í 1.179.
Fjöldi hjónavígslna hjá þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hélst nokkurn veginn sá hinn sami frá árinu 2013 til ársins 2016, eða um 1.800. Árið 2017 fóru þær hins vegar upp í 2.051.
Alls sögðu 2.477 sig úr þjóðkirkjunni á síðustu þremur mánuðum ársins 2017. Á sama tímabili gengu 231 í hana. Því gengu 2.246 fleiri landsmenn úr þjóðkirkjunni en í hana á tímabilinu. Þegar allt árið 2017 er skoðað kemur í ljós að 3.738 sögðu sig úr þjóðkirkjunni, þar af 60 prósent á síðustu mánuðum ársins. Á sama tímabili gengu 719 manns í kirkjuna. Þegnum hennar fækkaði því um 3.019 á síðasta ári.
Frá árinu 2009 hefur fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjunni dregist saman á hverju einasta ári. Í byrjun árs 2017 voru þeir 236.481 talsins, sem þýddi að undir 70 prósent þjóðarinnar væri í kirkjunni. Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Þeir eru nú yfir eitt hundrað þúsund. Fjöldi þeirra hefur því rúmlega þrefaldast.
Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að upplýsingarnar komi frá Þjóðskrá Íslands en þar er ekki skráð eftir trúfélögum og lífsskoðunarfélögum í breytingaskrá Þjóðskrár Íslands. Hægt er að keyra einstaklingaskrá og breytingaskrá og fá þannig upplýsingar um fjölda einstaklinga sem gekk í hjúskap eftir skráningu viðkomandi einstaklings í trúfélag eða lífsskoðunarfélag.