Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist orðlaus yfir fréttum af 45 prósenta launahækkunum stjórnarmanna og forstjóra Landsvirkjunar.
Greint var frá því í morgun á vef RÚV að samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar hafi laun stjórnarmannanna hækkað með þessum hætti, en auk þess hafi laun fimm framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra hækkað um 24 prósent.
Í samtali við Kjarnann segir Gylfi þetta vera með ólíkindum. „Ég skil það sem svo að þetta hljóti að hafa verið með samþykki ríkisstjórnar eða þessa ráðherra sem fer með málefni Landsvirkjunar. Eru þau ekki hluthafinn?“
Allar tölur í ársreikningnum eru í dollurum, en samkvæmt því hafa laun stjórnarmanna og forstjóra hækkað um 49 prósent milli ára en þegar tekið er tillit til sterkara gengis krónunnar má gera ráð fyrir að hækkunin nemi 45 prósentum í íslenskum krónum. Með sama hætti hækkuðu laun stjórnarmanna í tveimur dótturfélögum um 40 prósent og laun fimm framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar um 24 prósent.
Stjórnarlaun hækkuðu úr 12,7 milljónum króna í nítján milljónir á milli ára, samkvæmt framsetningu ársreikningsins. Laun forstjóra fóru úr 1,7 milljón í 2,5 milljónir á mánuði. Samanlögð laun fimm framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra fóru úr 136 milljónum í 171 milljón, eða að meðaltali úr 1,9 milljóna króna mánaðarlaunum í 2,4 milljónir.
Gylfi segir það alvarlegt að þetta mál komi ofan í umræðuna sem uppi hefur verið um málefni kjararáðs. „Ég veit ekki hvenær þessi ákvörðun um þessar launahækkanir hefur verið tekin. Þetta birtist okkur bara í gegnum ársreikninginn. Ég er bara orðlaus. Það er bara þannig. Bara orðlaus,“ segir Gylfi.
Hann segist ekki geta sagt fyrir um afleiðingar þessa í viðræðum ASÍ við stjórnvöld um forsendur kjarasamninga, en í síðustu viku lýsti miðstjórn ASÍ því yfir að þau teldu forsendur kjarasamninga brostnar vegna ákvarðana kjararáðs um launahækkanir þeirra sem undir ráðið heyra. Formannafundur aðildarfélaga ASÍ fer fram á morgun þar sem fjallað verður um stöðuna og ákvörðun tekin um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar.
„Við erum búin að vera í deilum við stjórnvöld um með hvaða hætti þau eigi að grípa inn í þegar kemur að kjararáði og á sama tíma er verið að taka svona ákvarðanir hjá Landsvirkjun. Maður er bara alveg í forundran að ráðhera hafi samþykkt þessa niðurstöðu,“ segir Gylfi.