Auglýst verða störf á leikskóla í Reykjavík fyrir ungt fólk á sautjánda aldursári. Þetta er liður í verkefni á vegum borgarinnar til að kynna starfið fyrir ungu fólki með það að markmiði að fjölga þeim sem velja þetta starf til framtíðar.
Ekki hefur verið ráðist í slíkt átak áður en um er að ræða 60 störf í allt. Annars vegar er um að ræða 30 störf sumarliða, þ.e. 17 ára ungmenna, og hins vegar 30 störf ungs fólks sem hefur áhuga á að fara í háskólanám á uppeldis- og menntunarsviði sem eru 18 ára og eldri.
Hér er um að ræða viðbótarstörf sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun og verður kostnaðurinn við tillöguna 59 milljónir í heild sinni. Kostnaðurinn við 30 sautján ára starfsmenn er um 24 milljónir.
Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að áhersla verði lögð á góða móttöku og námskeið fyrir hópinn. Segir jafnframt í tillögunni að horft sé til þess að oft geri reynst erfitt fyrir þennan hóp að fá vinnu yfir sumartímann.
Aðgerðirnar sem kynntar voru í borgarráði í síðustu viku fela í sér að gripið sé til margvíslegra aðgerða til að bæta vinnuumhverfi á leikskólum borgarinnar. Segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að þær byggi á tillögum starfshóps skóla- og frístundaráðs um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara sem skilaði niðurstöðum í þar síðustu viku.
Þar sé meðal annars lögð áhersla á aukið rými barna, fjölgun starfsfólks á elstu deildum, aukinn undirbúningstíma, fjölgun leikskólakennara og annars fagfólks, fjármagn til heilsueflingar og liðsheildarvinnu, aðgerðir til að efla móttöku nýliða meðal annars með leiðsagnarkennurum og handleiðslu, ímyndarvinnu og kynningu á störfum á leikskólum.