Þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið á stöðu eldri innflytjenda á Íslandi benda til þess að tungumálaörðugleikar og skert upplýsingaflæði til eldri innflytjenda geri þeim erfitt fyrir að sækja sér þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Hlutfallslega færri eldri innflytjendur nýta sér þá þjónustu sem er í boði hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna heldur en aðrir eldri íbúar.
Þetta kom fram á opnum fundi öldungaráðs Reykjavíkurborgar í morgun en þar voru málefni eldri innflytjenda rædd.
Reykjavíkurborg er það sveitarfélag sem tekur við flestum innflytjendum á Íslandi. Innflytjendum á Íslandi hefur farið fjölgandi og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast frá 2006. Í upphafi árs 2017 voru innflytjendur á Íslandi 35.997 eða 10,6 prósent. Flestir innflytjendur eru frá Póllandi eða 13.771 manns. Af þeim tæplega 36 þúsund innflytjendum voru 1224 eldri en 67 ára árið 2017 eða 3,4 prósent. Innflytjendur eldri en 60 ára eru ríflega 7 prósent af heildarfjölda innflytjenda.
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða Íslendingar 452 þúsund árið 2066. Jafnframt verða yfir 20 prósent landsmanna eldri en 65 ára árið 2039 og yfir 25 prósent árið 2057.
Stefna á að opna upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur
Til að eiga rétt á ellilífeyri þarf einstaklingur að hafa búið hér á landi í minnsta kosti 3 ár á aldrinum 16 til 67 ára og til að eiga rétt á fullum ellilífeyri þarf einstaklingur að hafa búið á Íslandi í samtals 40 ár. Ellilífeyrir er reiknaður út hlutfallslega eftir árafjölda búsetu og því myndi einstaklingur sem hefur búið hér í 30 ár á þessum tíma fá 75 prósent af fullum ellilífeyri. Tölur sýna að flestir innflytjendur flytjast til landsins til að vinna og eru þá yngri en 67 ára.
Margir flytja svo aftur til heimalandsins þegar þeir hafa náð 67 ára aldri, m.a. vegna þess að þeir hafa lítil réttindi hér á landi. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður landssambands eldri borgara og fulltrúi öldungaráðs Reykjavíkurborgar, velti því fyrir sér á fundinum hvort búsetureglur til ellilífeyris séu úreltar í löndum eins og Íslandi þar sem vinnuafl hefur vantað.
Í stefnu Reykjavíkurborgar í málum innflytjenda, flóttafólks og hælisleitanda kemur fram að sveitarfélagið ætli sér að opna upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018. Miðstöðin mun bjóða upp á sértæka ráðgjöf sem gengur þvert á verkaskiptingu ríkis og einstakra sveitarfélaga um borgararéttindi og ríkisstofnana. Markmið miðstöðvarinnar verður að auðvelda aðgengi þessa hóps að upplýsingum og þjónustu.