Stærri fjölmiðlar, sem tengdir eru mikilvægum viðskiptablokkum og jafnframt pólitískum öflum, ógna tilvist smærri sjálfstæðra miðla.
Þetta kemur fram í skýrslu GRECO, samtaka ríkja sem horfa fyrst og síðast á spillingu, annars vegar meðal valdhafa; forseta, ráðherra, ráðuneytisstjóra og annarra handhafa æðstu embætta og hins vegar í löggæslunni; lögreglu, Landhelgisgæslunni og tollgæslunni. Skýrslan birtist í dag.
Skýrsluhöfundar taka það fram að íslenskir fjölmiðlar gegni veigamiklu hlutverki í að koma í veg fyrir misgerðir og spillingu með umfjöllunum sínum.
Í skýrslunni er bent á að rannsóknarblaðamennska á Íslandi þurfi að standa frammi fyrir margs konar lagaákvæðum sem íslenskir blaðamenn segja „úrelt“. Þessi ákvæði væru ítrekað notuð til að hindra birtingu viðkvæmra frétta. Þá er bent á að nokkur mál hafi verið rekin fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
Í skýrslunni er enn fremur mælst til þess að settar verði reglur um samskipti æðstu handhafa framkvæmdavalds við hagsmunaaðila og aðra aðila sem leitast eftir því að hafa áhrif á undirbúning löggjafar og önnur störf stjórnvalda. Einnig að hagsmunaskráningakerfi æðstu handhafa framkvæmdavalds verði bætt, sér í lagi með því að taka tillit til verðmætis eigna þeirra, fjárhæðar framlaga til þeirra og skuldbindinga.
Þá verði athugað hvort efni séu til að víkka skráningarskylduna og láta hana ná yfir maka og börn á forræði viðkomandi, með tilliti til þess að slíkar upplýsingar þyrfti ekki endilega að birta opinberlega. GRECO vill einnig að settar verði reglur um störf æðstu handhafa framkvæmdarvalds eftir að störfum fyrir hið opinbera líkur.
Átján ábendingar til úrbóta koma fram í skýrslunni, þar af níu varðandi æðstu handhafa framkvæmdavalds og níu á sviði löggæslu. Stjórnvöldum er veittur frestur til 30. september 2019 til að bregðast við ábendingunum.