Þjóðkirkjan og Biskup Íslands auglýsa nú eftir verkefnisstjóra á sviði samskiptamála. Auglýsinguna má finna á vefsíðunni storf.is.
Þar kemur fram að verkefnisstjórinn beri ábyrgð á framkvæmd samskiptastefnu þjóðkirkjunnar, mótun verkferla er verða upplýsingamiðlun biskupsstofu og á vettvangi stofnana kirkjunnar svo og uppbyggingu tengslanets. „Leitað er eftir einstaklingi er býr yfir framúrskarandi samskiptafærni, ástríðu gagnvart viðfangsefninu, drifkrafti og einurð.“
Starfsaðstaða verkefnisstjóra verður á biskupsstofu en hann mun sjá um ritstjórn vefja kirkjunnar og annarra miðla biskupsstofu, samskipti og þjónustu við fjölmiðla, fréttaskrif, auk þess að sjá um samstarf við starfsfólk og leikmenn í kirkjunni um efnisgerð og miðlun efnis.
Umsækjendur skulu hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi eða yfirgripsmikla reynslu af miðlun upplýsinga. Menntun á sviði guðfræði eða reynsla úr kirkjustarfi er talinn kostur.
Tæplega fjögur þúsund gengu úr Þjóðkirkjunni í fyrra
Síðustu áratugir hafa reynst kirkjunni erfiðir og mikill flótti verið frá henni, mikið til vegna hneykslismála sem henni hafa tengst.
Alls sögðu 2.477 sig úr þjóðkirkjunni á síðustu þremur mánuðum ársins 2017. Á sama tímabili gengu 231 í hana. Því gengu 2.246 fleiri landsmenn úr þjóðkirkjunni en í hana á tímabilinu. Þegar allt árið 2017 er skoðað kemur í ljós að 3.738 sögðu sig úr þjóðkirkjunni, þar af 60 prósent á síðustu mánuðum ársins. Á sama tímabili gengu 719 manns í kirkjuna. Þegnum hennar fækkaði því um 3.019 á síðasta ári.
Frá árinu 2009 hefur fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjunni dregist saman á hverju einasta ári. Í byrjun árs 2017 voru þeir 236.481 talsins, sem þýddi að undir 70 prósent þjóðarinnar væri í kirkjunni.
Nú eru þeir 233.462 og fækkaði, líkt og áður sagði, um 3.019 á síðasta ári. Alls sögðu 3.738 manns sig úr kirkjunni á árinu 2017.
Það er næstmesti fjöldi sem hefur sagt sig úr kirkjunni á einu ári. Metið var sett á árinu 2010, þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram. Þá fækkaði um 4.242 í þjóðkirkjunni á einu ári.
Miðað við mannfjöldatölur í lok þriðja ársfjórðungs síðasta árs eru nú 69 prósent þjóðarinnar í þjóðkirkjunni.
Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Þeir eru nú yfir eitt hundrað þúsund. Fjöldi þeirra hefur því rúmlega þrefaldast.