Nokkrir nemendur við Háskóla Íslands hafa stofnað félagið Fjárráð sem er ætlað að halda utan um jafningjafræðslu um fjármálalæsi og hvað beri að hafa í huga varðandi fjármál. Félagið hyggst kenna nemendum á öllum stigum skólakerfisins um helstu atriði hvað varðar lántöku, sparnað og fjármál almennt. Að stofnun félagsins koma Emil Dagsson, meistaranemi í fjármálahagfræði, Jónas Már Torfason, nemi í lögfræði, Marinó Örn Ólafsson, nemi í hagfræði og Ingiríður Halldórsdóttir nemi í þjóðfræði en þau hafa öll verið virk í hagsmunabaráttu stúdenta.
Þau ákváðu að stofna félagið því þeim fannst vanta grunnfræðslu á fjármálum í skólakerfið. Emil segir að þau finni fyrir að mikið af fólki á þeirra aldri eigi í erfiðleikum með að skilja fyrirbæri tengd fjármálum.
„Það kannast margir við frasann: „Ég borga og borga niður lánin mín en þau hækka bara og hækka“ hér er mjög líklegt að viðkomandi hefur tekið verðtryggt lán og geri sér ekki grein fyrir hvaða skilyrði lágu þar að baki. Í heimi þar sem lántaka er nær óhjákvæmileg og alltaf að verða auðveldara að næla sér í lán er nauðsynlegt að viðeigandi fræðsla eigi sér stað í þeim málum.“ segir Emil.
Aðspurður hvort stofnun félagsins séu viðbrögð við nýútkominni fjármálaáætlun segir Emil að það mætti kannski segja það. Félagið hafi verið í kortunum í smá tíma en þegar þessi umræða um fjármálalæsi byrjaði ákváðu þau að þetta væri kjörinn tími til að stofna það.
Í fjármálaáætluninni sem kom út fyrr í mánuðinum kemur fram að lélegt fjármálalæsi hjá almenningi sé ákveðin áskorun þar sem aukin hætta sé á að fólk lendi í fjárhagslegum erfiðleikum. Einnig kemur fram að mikilvægt sé að efla kennslu í fjármálalæsi strax frá unga aldri þar sem aukið fjármálalæsi stuðlar að fjárhagslegri velferð bæði einstaklinga og samfélagsins í heild. Orðalagið í fjármálaáætluninni hefur verið gagnrýnt, þá helst af fólki á vinstri væng stjórnmálanna.
„Ef ég skil þá umræðu rétt þá er fólk reitt yfir því að stjórnvöld telji að aukning einstaklinga í greiðsluaðlögun sem tilheyra aldurshópnum 18-29 ára, sem hefur hækkað um rétt undir 10 prósent á seinustu fimm árum, megi rekja til lélegs fjármálalæsis hjá þeim samfélagshópi. Þær raddir sem hafa gagnrýnt þetta bentu réttilega á að þessi hækkun gæti líka verið afleiðingar þess að fólk í þessum samfélagshópi eiga hreinlega ekki efni á að greiða lánin sín og endi þannig í vanskilum, sem mér finnst alveg raunmæt gagnrýni.“ segir Emil.
Rekur hluta skýringarinnar til aukins framboðs á smálánum
„Þó finnst mér ekkert ósennilegt heldur að hluta þeirrar hækkunar megi rekja til þessa gríðarlegu aukningar á framboði á lánum sem við höfum séð t.d. með allri þessari smálánastarfsemi sem er að auglýsa mjög víða. Ég held alveg örugglega að hluti þeirra sem taka slík lán átta sig ekki endilega á þeim skilmálum og þeirri fjárhagslegu ábyrgð sem þau eru að taka sér og eru þar með líklegri til að lenda í vanskilum.“ segir Emil. Hlutfall ungs fólk, á aldrinum 18-29 ára, sem leitar til Umboðsmanns skuldara í greiðsluvanda vegna smálána hefur margfaldast á síðustu árum.
„Ég tel sennilegt að hluta þeirrar hækkunar megi rekja til lélegs fjármálalæsis þar sem t.d. Ísland er neðar öðrum OECD ríkjum þegar fjármálalæsi er skoðað. Þá er ekki hægt að fullyrða að hækkunin er öll vegna þess. Það hljóta vera fullt af liðum sem koma að þessari hækkun og alls ekkert neitt eitt, það þarf líklega bara að skoða aðeins betur hvað liggur að baki þessari hækkun til að skilja betur hvað er að gerast þarna.“ segir Emil.
Félagið verður stofnað klukkan eitt í dag og mun Katrín Júlíusdóttir, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja og Breki Karlsson forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi halda erindi á fundinum sem verður haldinn í stofu 103 í Lögbergi.