Lýðháskóli mun taka til starfa í fyrsta skipti á Íslandi í haust. Skólinn mun bjóða upp á nýja valmöguleika til náms, en skólinn starfar ekki samkvæmt sömu lögum og framhaldsskólar.
Skólinn er staðsettur á Flateyri í Önundarfirði. Lýðháskólar eru vinsælir í nágrannalöndum okkar og hafa margir Íslendingar lagt land undir fót og lagt stund á nám við lýðháskóla á norðurlöndunum. Allir þeir sem hafa náð 18 ára aldri geta sótt um í skólanum en hámarks fjöldi nemenda verður 40.
Lýðháskólar leggja áherslu á að veita menntun utan hins hefðbundna skólakerfis með prófgráðum og námsárangri. Rannsóknir sýna að vera í lýðháskóla hefur jákvæð áhrif á þá sem hafa hætt námi í hefðbundnum skólum. Líkurnar á að snúa aftur til náms aukast sem og að þeir einstaklingar ljúki gráðum á hærra menntunarstigi.
Tvær námsbrautir verða í boði við skólann sem hvor um sig tekur að hámarki 20 nemendur. Kennt verður í tveggja vikna lotum yfir skólaárið sem hefst 19. september.
Námsbrautin Hafið, fjöllin og þú einblínir á að fræða nemendur um nýtingu auðlindanna á öruggan og umhverfisvænan máta. Í hinni námsbrautinni, Hugmyndir, heimurinn og þú, verður áhersla lögð á hugmyndavinnu og sköpun.
Aðeins hluti af kennslunni mun fara fram innandyra en líkt og heiti námsbrautanna gefur til kynna þá verður unnið í og með náttúrunni og umhverfinu.
Helena Jónsdóttir, skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri, segir þau finna fyrir nokkrum áhuga erlendis frá. Í haust verður þó aðeins kennt á íslensku og námið því ætlað þeim sem geta skilið og talað íslensku. „Innflytjendur hafa tjáð áhuga sinn en einnig hefur verið áhugi frá brottfluttum Íslendingum sem eiga börn.“ segir Helena. Foreldrar ungmenna sem ekki hafa fundið sig í hinu hefðbundna skólakerfi hafa einnig tjáð áhuga sinn.
Stuðningur frá samfélaginu
„Við finnum fyrir miklum stuðningi frá íbúum á Flateyri. Fólk er boðið og búið að lána okkur búnað og leigja okkur aðstöðu fyrir kennslu.“ segir Helena.
Ísafjarðar bær hefur einnig stutt við verkefnið, bæði með beinum fjárstyrkjum, endurgjaldslausu húsnæði og baktryggingu.
Verkefnið er að mestu leyti fjármagnað að fullu en enn þá vantar nokkrar milljónir upp á að sögn Helenu. Það er þó undir 5 milljónum en Ísafjarðarbær hefur að sögn hennar gefið þeim vilyrði fyrir því að hlaupa undir bagga, ef til þess kemur.
Hugmyndir að skólanum fengu stofnendur skólans fyrir um 5-7 árum en fyrir tveimur árum varð hugmyndin að alvöru. Þá hófst undirbúningsvinnan og í haust er áætlað að hefja skólahald á Flateyri.
Inngöngukröfur í lýðháskóla eru ekki hefðbundnar í þeim skilningi að námsárangur og starfsreynsla vega ekki þungt heldur áhugasvið, viðhorf og persónuleiki umsækjenda. Nemendur þurfa því ekki að hafa lokið neinu formlegu námi áður en sótt er um í skólanum. Námsmat fer heldur ekki fram á hefðbundinn máta líkt og í framhaldsskólum heldur í gegnum fundi og samtöl við aðra nemendur, kennara og íbúa samfélagsins. Skólahaldið snýst því einnig um að virkja samfélagið og auðga mannlífið.
Hægt er að lesa meira um skólann á heimasíðu hans.