Fundur velferðarnefndar Alþingis með Braga Guðbrandssyni fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu verður lokaður. Upphaflega stóð til að um opinn fund yrði að ræða.
Í samtali við RÚV segir Halldóra Mogensen formaður nefndarinnar að í gærkvöldi hafi hún fengið bréf frá lögmanni föður mannsins sem Stundin fjallaði um á föstudag. Í bréfinu var áhyggjum af þessum opna fundi komið á framfæri en að öðru leyti vildi Halldóra ekki fara nánar út í efni bréfsins.
Eftir nánari athugun og samráð við nefndarsvið Alþingis hafi hún tekið áhyggjurnar til greina og ákveðið að hafa fundinn lokaðan til að koma í veg fyrir að menn gætu óvart brotið gegn trúnaði.
Í umfjöllun Stundarinnar kom fram að Bragi hafi beitt sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn.
Bragi óskaði sjálfur eftir að fá að koma fyrir fund nefndarinnar. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér kom fram að hann teldi sig geta varpað nýju ljósi á málið sem „kollvarpi þeirri mynd sem verið hefur uppi í umfjöllun Stundarinnar um málið og í kjölfar hennar“.