Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu óskaði eftir því í dag við formann stjórnar Hörpu að laun hennar yrðu lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018 og yrðu til samræmis við úrskurð kjararáðs frá því snemma árs 2017. Þetta kemur fram í Facebook-færslu hennar í dag.
„Kjaramál mín hafa truflað mjög mikilvægt verkefni sem nú er í vinnslu er varðar rekstur hússins. Friður um Hörpu er ofar öllu,“ segir hún í færslunni.
Í frétt Kjarnans sem birtist í gærkvöldi kom fram að tuttugu þjónustufulltrúar í Hörpu höfðu ákveðið að segja upp störfum sínum í kjölfar fundar með Svanhildi. Ástæðan var óánægja með launahækkun forstjórans, upp á um 20 prósent, en stutt er síðan starfsfólk í Hörpu tók á sig launalækkanir vegna erfiðleika í rekstri.
Fundurinn var boðaður eftir fréttir um þjónustufulltrúa í Hörpu sem ofbauð svo launahækkun Svanhildar að hann sagði upp. „Stuttu eftir að laun forstjóra voru hækkuð af stjórn Hörpu, voru laun þjónustufulltrúa lækkuð. Á fundinum staðfesti Svanhildur að þjónustufulltrúar Hörpu væru einu starfsmennirnir sem gert var að taka á sig beina launalækkun. Hópur starfsmanna sem þá þegar var launalægstur allra starfsmanna Hörpu,“ segir í tilkynningu frá þjónustufulltrúunum.
Ég óskaði eftir því við formann stjórnar Hörpu í dag að laun mín yrðu lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018 og yrðu til...
Posted by Svanhildur Konráðsdóttir on Tuesday, May 8, 2018