Ríkisháskólinn í Michigan (Michigan State University) hefur samþykkt að greiða 332 fórnarlömbum kynferðisafbrotamannsins Larry Nassar, sem um tíma var læknir bandaríska landsliðsins í fimleikum, 500 milljónir Bandaríkjadala í bætur, eða sem nemur um 50 milljarða króna.
Nassar starfaði lengi við skólann, og braut gegn mörg hundruð stúlkum meðan hann sinnti starfi sínu.
Frá þessu var greint í sameiginlegri yfirlýsingu skólans og lögmannateymis fórnarlambanna í dag. Í frásögn New York Times kemur fram að velgjörðarsjóðir skólans (Trustees) muni sjá um að greiða bæturnar, en ekki hefur ennþá verið gengið frá fjármögnun á þessari upphæð.
John Manly, aðallögmaður fórnarlamba Nassars, segir að bótagreiðslan hafi verið ákveðin, eftir gífurlega erfiðleika sem fórnarlömbin hafi þurft að ganga í gegnum. „Það þurfti hugrekki meira en 300 kvenna til að stöðva brotin,“ sagði Manly.
BREAKING: Michigan State Univ. says it has reached $500,000,000 settlement with 332 women and girls who say they were sexually assaulted by Larry Nassar.
— NBC News (@NBCNews) May 16, 2018
Hann segist bera þá von eftirlifandi fórnarlamba Nassars í brjósti, að þessi bótagreiðsla - og málið allt - muni skapa fordæmi fyrir aðra sem hafa verið í sambærilegri stöðu, og leiða til þess að kynferðisbrot í íþróttum, skólum og annars staðar í samfélaginu verði ekki liðin eða þögguð niður.
Nassar hefur þegar hlotið þrjá lífstíðardóma fyrir brot sín, og fangelsisrefsing hefur í þeim verið á bilinu 40 til 125 ára fangelsi. Hann mun að líkindum deyja í fangelsi, þar sem möguleiki á reynslulausn er ekki fyrir hendi á næstunni.
Nassar er 54 ára gamall. Upp komst um brot hans, þegar stúlkur sem hann hafði brotið gegn stigu fram, ein af annarri, og lýstu hrikalegum brotum hans og afleiðingum þeirra.
Bandaríska alríkislögreglan rannsakaði glæpi hans og var hann ákærður að lokum, í þremur mismundandi málum. Auk þess að vera dæmdur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gagnvart stúlkum, var hann einnig dæmdur fyrir að vera með barnaklár í vörslu sinni.