Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar í sakamáli manns sem hafði verið dæmdur í 17 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot.
Þetta þýðir, að mati Hæstaréttar, að Arnfríður Einarsdóttir megi dæma í Landsrétti.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi mannsins, gerði þá kröfu að Arnfríður viki sæti þar sem hún var einn þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru í réttinn af Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra þrátt fyrir að vera ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði talist hæfasta til að gegna embættinu.
Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms í lok febrúar síðastliðnum og sagði að skipuninni yrði ekki haggað. Alþingi hafi samþykkt skipunina og á þeim grundvelli hafi forseti Íslands skipað hana. Þá liggi fyrir að Arnfríður uppfylli og uppfyllti við skipunina almenn hæfisskilyrði samkvæmt lögum um dómstóla. Sem skipuðum dómara beri henni að rækja þann starfa sem embættinu fylgir í samræmi við stjórnarskránna. Þá njóti hún sjálfstæðis í embættisathöfnum sínum, meðal annars gagnvart ráðherra sem gerði tillögu um skipan hennar í embættið.