Landsmenn bíða væntanlega margir með eftirvænting eftir heimsmeistaramótinu í fótbolta sem hefst þann 14. júní næstkomandi þar sem Íslendingar keppa í fyrsta sinn. Fyrsti leikur liðsins er á móti Argentínu laugardaginn 16. júní og verður hægt að horfa á leikinn á RÚV, sem og aðra leiki.
Vegna samninga og sýningarréttar getur Ríkissjónvarpið ekki boðið Íslendingum, sem dvelja erlendis, upp á að sjá leikina þar sem reglur leyfa ekki sýningu utan landsteinanna.
EBU, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, gerði samning árið 2012 við FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, um sýningarréttinn á HM 2018 í Rússlandi og 2022 í Katar. Ástæða þess að FIFA gerði samninginn er fyrst og fremst krafan um að mótin verði sýnd í opinni dagskrá sem stendur öllum almenningi til boða.
„Þegar þú kaupir sýningarrétt þá ertu að kaupa fyrir þitt landsvæði,“ segir Hilmar Björnsson, deildarstjóri Íþróttadeildar RÚV, í samtali við Kjarnann. Hann segir að þetta hafi líka átt við um undankeppni HM. Þá hafi RÚV getað sýnt heimaleikina en þurft leyfi til að nálgast útileikina í gegnum gervihnött.
Hilmar segir að reglurnar séu gríðarlega harðar og ef eitthvað sem ekki má fara utan Íslands gerir það þá sé gripið strax í taumana, enda séu miklir fjármunir í spilinu.
Misjafnt er hvernig sýningarrétti er háttað og hvernig íþróttasambönd haga sér í þeim efnum. Hilmar segir að sömu ströngu reglur hafi gilt um Ólympíuleikana en þá hafi verið bannað að leka merki útsendinga út fyrir landsteinana.
Sérstakur HM-vefur mun opna á næstu dögum á RÚV þar sem hægt verður að fylgjast með mótinu, fá upplýsingar um leiki o.s.frv.