Niðurstaða óháðrar úttektar á málsmeðferð og efnislegri athugun velferðarráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar liggur nú fyrir en hún var kynnt í dag á Þjóðminjasafninu.
Í niðurstöðum úttektarinnar, sem kynnt var ríkisstjórninni í dag, voru gerðar athugasemdir við að velferðarráðuneytið hafi fullyrt í bréfi sínu til Barnaverndarstofu og forstjóra hennar þann 27. febrúar síðastliðinn að forstjórinn hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að beina málinu ekki til Embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari framkvæmdi úttektina með liðsinni Kristínar Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Í henni var farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, það er þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis.
Þá eru einnig gerðar athugasemdir við það að í úttektinni hafi ráðuneytið komist að niðurstöðu í máli forstjórans án þess að vera gefinn kostur á að kynna sér gögnin sem niðurstaðan var byggð á og veitt tækifæri til að tjá sig um þau.
Í úttektinni er jafnframt lýst efasemdum um að ráðuneytið hafi haft fullnægjandi stoð um aðfinnslu um forstjóra Barnaverndarstofu.
Málsmeðferð ráðuneytisins samrýmdist ekki grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins, samkvæmt úttektinni. Að því er snertir viðbrögð ráðuneytisins við þeim kvörtunum sem barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu komu á framfæri í nóvember 2017 um starfshætti Barnaverndarstofu og framgöngu starfsfólks stofnunarinnar er það niðurstaða úttektarinnar að velferðarráðuneytið hafi ekki gert fullnægjandi ráðstafanir til að upplýsa hvað væri hæft í þeim ávirðingum sem bornar voru á barnaverndarstofu og starfsfólk hennar.
„Þetta lét ráðuneytið hjá líða þótt það hefði sjálft lýst þeirri afstöðu í bréfi í nóvember síðastliðnum að athugasemdir barnavernarnefndanna þriggja gæfu til kynna að veruleg vandamál hefðu skapast í barnaverndarstarfi á Íslandi og að forstjóri Barnaverndarstofu kynni að hafa brotið af sér í starfi,“ sagði Kjartan í kynningunni.
Samkvæmt niðurstöðum þessarar úttektar voru þær ávirðingar sem settar voru fram og beindust að störfum forstjórans þess eðlis að ráðuneytinu bar að afla frekari upplýsingar um þær til þess að geta tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri til að gera frekari athugun á störfum Barnaverndarstofu.
Tekið er fram að niðurstöðurnar takmarkast við það atvik sem þar er lýst samkvæmt gögnum ráðuneytisins. Ekki er í úttektinni tekin afstaða til samskipta ráðherra við Alþingi, hvernig ráðherra sé rétt að haga afgreiðslu um endurupptöku málsins.