Alls höfðu 68,5 milljónir manna verið hrakin burt frá heimilum sínum um allan heim undir lok síðasta árs, samkvæmt nýbirtri skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar af voru flóttamenn 25,4 milljónir og hafa þeir aldrei verið jafnmargir frá því mælingar SÞ hófust.
Samkvæmt skýrslunni hýsir Tyrkland fleiri flóttamenn enn nokkur önnur þjóð, fjórða árið í röð. Ef tekið er tillit til íbúafjölda hins vegar hafa Líbanon og Jórdanía vinningin, en fjórðungur íbúa í Líbanon og þriðjungur íbúa í Jórdaníu teljast til flóttamanna. Alls eru 85% flóttamanna staðsett í þróunarlöndum, en flestir þeirra flýja til nágrannalanda sinna. Dreifing flóttamanna eftir þjóðernum er ójöfn, en 68% allra flóttamanna koma frá einungis fimm löndum: Sýrlandi, Afghanistan, Suður-Súdan, Myanmar og Sómalíu.
Fjöldi þeirra sem skráðir eru flóttamenn samkvæmt UNRWA-tilskipun SÞ nemur 25,4 milljónum manna. Þetta eru hæstu tölur í tíu ár, eða frá því að mælingar hófust. Rúmur helmingur þeirra eru börn, og þar af eru 173,800 þeirra án forráðamanna eða aðskilin frá foreldrum sínum. Þetta er í fyrsta skipti sem SÞ safnar upplýsingum um þennan hóp, en samkvæmt skýrslunni er mikilvægt fyrir ríkisstjórnir allra landa að gera slíkt hið sama þar sem börn án fylgdar sé viðkvæmasti hópur flóttamanna.
Myndband Sameinuðu Þjóðanna um nýútgefna skýrslu.
Alls voru 68,5 milljónir manna vergangi í lok árs 2017 og höfðu ekki verið fleiri frá upphafi mælinga SÞ árið 2003. Meðal þeirra voru 40 milljónir manna í eigin heimalandi og 3,1 milljón hælisleitenda.
Samhliða metfjölda flóttamanna á heimsvísu hefur fjöldi hælisleitenda til Íslands og Evrópusambandsins minnkað ört, eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag. Hælisumsóknir til aðildarríkja sambandsins voru tæpar 730.000 talsins árið 2017, sem er um 44% lækkun frá því árinu á undan.