Lars Lagerbäck sagði Ísland vera í uppáhaldi í leik liðsins gegn Nígeríu í viðtali við SVT fyrr í dag. Þjálfarinn, sem samkvæmt miðlinum er bæði kallaður „Lasse Lagos“ og „Lassa Lava“, kom landsliði Nígeríu á þarsíðasta heimsmeistaramót í Suður-Afríku árið 2010.
SVT Sport tók viðtal við Lagerbäck og innti þjálfarann eftir svörum um hvort liðið hann myndi halda með í leik dagsins og fékk afgerandi svar. „Það er ljóst að maður hefur tilfinningar til beggja liða þar sem maður hefur þjálfað hjá þeim, en ég var jú hjá Íslandi mun lengur og þekki starfsmennina og leikmennina þar mjög vel á meðan heilt yfir litið er enginn leikmaður eftir frá minni tíð í Nígeríu,“ segir þjálfarinn.
Meiri liðsheild hjá Íslandi
Lagerbäck tók við þjálfarahlutverki nígeríska landsliðsins árið 2010, rétt fyrir HM í Suður-Afríku, en fór með þá beint í umspil fyrir mótið. Stuttu síðar lét svo Lagerbäck af störfum og byrjaði sem landsliðsþjálfari Íslands.
Lagerbäck bætir við að leikstíll íslenska landsliðsins beri enn keim af þjálfaratíð hans, á meðan leikstíll nígeríska liðsins hafi gjörbreyst frá árinu 2010: „Nígeríska liðið byggir meir á færni einstaklinga, en Ísland býr yfir meiri liðsheild, jafnvel þótt ég hafi ekki 100% hugmynd um hvernig Nígería spilar nú til dags.“
Jafn leikur
Þrátt fyrir ólíkan stíl liðanna heldur Lagerbäck að leikurinn verði mjög jafn. „Þetta eru tvö lið sem spila með ólíkum hætti, en leikurinn kemur örugglega til með að verða nokkuð jafn þrátt fyrir það,“ segir þjálfarinn. Þegar blaðamaður spyr hvort liðið hann haldi að muni vinna ítrekar Lars: „Ísland er í svolitlu uppáhaldi, jafnvel þótt ég haldi að þetta muni verða jafn leikur.“