Erlendir miðlar ausa lofi á Ahmed Musa, sem skoraði bæði mörkin í 2-0 tapleik Íslands gegn Nígeríu. Sömuleiðis gefur tap strákanna okkar Argentínumönnum von um að komast upp úr riðlinum, ef marka má miðlana þar í landi.
Íþróttavefur BBC hrósar Musa fyrir mörkin sín tvö og segir leikmanninn, sem spilar með Leicester, hafa sýnt yfirburðatækni í leiknum. Íslenska landsliðið hafi hins vegar bráðnað í hitanum í Volgograd og spilað verr eftir því sem á leið á leikinn.
Mikið var í húfi fyrir Nígeríumenn í leiknum, en með úrslitunum komu þeir sér úr síðasta sæti riðilsins og upp í annað sæti. Því er ekki að undra að Nígeríubúar séu einnig jákvæðir, en þar er landslið þeirra, sem kallaðir eru Ofurernirnir, hrósað mjög fyrir frammistöðu sína fyrr í dag, meðal annars af forseta landsins. Margir virðast hafa sérstaklega mikla trú á Musa, jafnvel það mikla að nígerískur stuðningsmaður hefur spáð því að leikmaðurinn sjálfur verði forseti Nígeríu innan árs.
Argentínskir miðlar eru einnig sáttir með úrslit tapleiksins, en íþróttavefurinn Olé sagði Nígeríumenn gefa Argentínu vonarglætu með því að sigra Ísland. Líkt og BBC segir Olé hitann hafa verið aðalorsök slæmrar frammistöðu Íslendinga, en hann náði upp í 32 gráður á vellinum í dag.
Ljóst er að næstu leikir Íslands og Argentínu munu skipta sköpum fyrir úrslit riðilsins á heimsmeistaramótinu. Til þess að Argentínumenn eigi möguleika á að komast í útsláttarkeppni mótsins þurfa þeir að sigra Nígeríu og bæta markatölu sína um 2 umfram Ísland. Samkvæmt fótboltasérfræðingum ESPN er ekki líklegt að það gerist, lítill andi virðist vera í liðinu sem og hjá stuðningsmönnum þeirra.
Íslenska landsliðið hefur einnig á brattann að sækja, en þeir þyrftu að vinna gegn Króatíumönnum og gætu þá unnið á markatölu gegn Argentínu. ESPN segir Ísland hafa yfirhöndina sem stendur, en margt gæti gerst á næstu dögum.