Tyrkland fangelsar fleiri blaðamenn en nokkur önnur þjóð í heimi, en landið hefur að geyma um þriðjung allra blaðamanna heims sem eru á bak við lás og slá. Þetta kemur fram í nýrri herferð Amnesty International fyrir frjálsri fjölmiðlun í Tyrklandi.
Samkvæmt Amnesty er tjáningarfrelsi í Tyrklandi í stöðugri og vaxandi hættu, en allt frá valdaránstilraun tyrkneska hersins í júlí 2016 eiga fræðimenn, blaðamenn og rithöfundar sem eru gagnrýnir á stjórnvöld þar í landi hættu á lögsókn, hótunum, áreiti og ritskoðun.
Í kjölfar valdaránstilraunarinnar setti ríkisstjórnin á neyðarlög í landinu sem leiddi meðal annars til lokunar á 180 fjölmiðlum. Í herferð Amnesty er aðgerðum tyrkneskra stjórnvalda lýst sem „dauða blaðamennsku.“Þar er einnig krafist endaloka neyðarstjórnarinnar í Tyrklandi auk lausnar fangelsaðra blaðamanna og þeirra sem sitja í varðhaldi fram að réttarhöldum.
Kristinn Hrafnsson blaðamaður bendir á ákallið í stöðuuppfærslu á Facebook og segir árangur ritskoðunarstefnu tyrknesku ríkisstjórnarinnar mega sjá í úrslitum kosninga helgarinnar. Kjarninn fjallaði um þau úrslit fyrr í dag, en þar fékk flokkur Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, 52,5 prósent atkvæða og var hann því endurkjörinn.
Tyrkland og EFTA-ríkin undirrituðu uppfærðan fríverslunarsamning á milli sín í Skagafirði í morgun, en þar héldu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, tvíhliða fund. Á fundinum var meðal annars rætt um mannréttindi og mál Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa fallið í hernaði Tyrkja í Afrin-héraði fyrr á þessu ári.