Íslenska landsliðið í knattspyrnu karla tapaði fyrir Króatíu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi rétt í þessu, 1-2. Leikurinn fór fram á Rostov-leikvanginum.
Íslenska liðið hélt hreinu í rúmar fimmtíu mínútur en oft mátti litlu muna að strákarnir okkar næðu að setja knöttinn í netið. Milan Badelj skoraði mark Króata á 53 mínútu. Íslendingar fengu vítaspyrnu á 76 mínútu og skoraði Gylfi Þór Sigurðsson örugglega. Mikil spenna var í lok leiks en nauðsynlegt var fyrir Íslendinga að skora til að komast áfram. Á 90 mínútu skoraði Ivan Perisic síðara mark Króata.
Lið Íslands gerði jafntefli, eins og frægt er orðið, við Argentínu í fyrsta leik Íslands á HM þann 16. júní síðastliðinn. Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslendinga. Annar leikur liðsins við Nígeríu fór ekki eins vel sex dögum síðar en þá unnu mótherjarnir 2-0. Til þess að eiga von á að komast áfram þurftu Íslendingar að vinna og vonast eftir jafn stórum argentínskum sigri.
Leikur Argentínu og Nígeríu fór 2-1 fyrir Argentínu. Króatía og Argentína munu því mæta Frökkum og Dönum í 16 liða úrslitum.
Ekki verður annað sagt en að íslenska liðið hafi staðið sig vel á þessu fyrsta heimsmeistaramóti sínu og geta landsmenn verið stoltir af strákunum sínum.