Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í dag að stéttarfélög mættu ekki rukka opinbera starfsmenn utan þeirra fyrir kjarasamninga. Búist er við að tap stéttarfélaganna á þessum dómi muni hlaupa á tugum milljóna Bandaríkjadala. Þetta kom fram í frétt um málið á vef New York Times.
Samkvæmt fréttinni komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að nauðungarfjármögnun fyrir starfssemi stéttarfélaga bryti í bága við fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar þar í landi, sem á að vernda tjáningarfrelsi einstaklinga. Samuel A. Alito Jr., einn hæstarréttardómaranna, rökstuddi dóminn á þann veg að fyrirkomulagið brjóti á málfrelsisréttinum einstaklinga utan stéttarfélaga með því að neyða þá til að niðurgreiða sjónarmið sérhagsmunahópa í málum sem varða almenning allan.
Úrskurðurinn var naumlega samþykktur, en fimm dómarar samþykktu hann á meðan fjórir þeirra lögðust gegn honum.
Væntanlegt tap bandarískra stéttarfélaga vegna úrskurðarins er metið í tugum milljóna Bandaríkjadala, og þar af leiðandi er hætta á að áhrifamáttur þeirra, sem er ekki mikill fyrir í Bandaríkjunum, minnki enn frekar. Alito viðurkenndi að dómurinn myndi líklega hafa mikil neikvæð áhrif á stéttarfélögin, en sagði að líta bæri á þau í samhengi við þann pening sem hann hefði ekki átt að fá á síðustu árum.
Í fyrra var rétt rúmur þriðjungur opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum skráðir í stéttarfélag og 6,5 % starfsmanna í einkageiranum. Í opinberum störfum hefur skráningarhlutfallið haldist nokkuð jafnt á síðustu 35 árum, á sama tíma sem það hefur lækkað úr 33% hjá einkafyrirtækjum.