Nær öll íslenska þjóðin er á Facebook og um tveir af hverjum þremur nota Snapchat reglulega. Notkunin á Snapchat er þó ójafnari milli þjóðfélagshópa, en forritið er vinsælast meðal kvenna, minna menntaðra, íbúa landsbyggðarinnar og kjósenda Framsóknarflokksins. Þetta kom fram í nýrri könnun MMR.
Í könnuninni, sem mældi notkum samfélagsmiðla eftir lýðfræðihópum, kom í ljós að 93% Íslendinga segjast nota Facebook. Næstvinsælasti miðillinn var Snapchat, en 67% þjóðarinnar segjast nota hann reglulega. Aðrir miðlar sem njóta mikilla vinsælda eru YouTube (66%), Spotify (51%) og Instagram (45%). Frá síðustu könnun MMR fyrir tveimur árum síðan hefur mest aukning verið á notkun Spotify og Snapchat.
Snapchat vinsælt á landsbyggðinni
Notkun miðlanna dreifist misjafnt milli þjóðfélagshópa, en lítinn mun var þó að sjá á notkun Facebook yfir allt landið og alla aldurshópa. Svarendur á höfuðborgarsvæðinu voru hins vegar duglegri að nota YouTube, Spotify og Instagram heldur en þeir á landsbyggðinni, en notkun á þessum miðlum jókst einnig með aukinni menntun.
Svipað mynstur mátti sjá þegar litið var til stjórnmálaskoðana, en stuðningsfólk stjórnmálaflokka sem mælast sterkastir á landsbyggðinni (Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur) voru líklegri en aðrir til að segjast nota Snapchat reglulega. Stuðningsmenn flokka sem eru sterkari á höfuðbrgarsvæðinu (Samfylking, Píratar og Viðreisn) voru hins vegar líklegri til að nota YouTube, Spotify og Instagram.
Nokkur munur var á notkun samfélagsmiðla milli kynja, en miðlarnir Snapchat og Pinterest virðist vinsælli meðal kvenna á meðan fleiri karlar nota YouTube, Twitter, LinkedIn og Reddit. Þá fór notkun miðlanna almennt minnkandi með adrei að undanskilinni notkun hjá LinkedIn, sem er vinsælla meðal eldri einstaklinga.