Ný skýrsla OECD mælir með auknu aðgengi innflytjenda og flóttamanna að löglegum störfum. Þær aðgerðir myndu hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, en stofnunin bendir einnig á að áhyggjur almennings af neikvæðum áhrifum innflytjenda séu ofmetin.
Samkvæmt skýrslunni hefur fjöldi innflytjenda til OECD-ríkja minnkað nokkuð í fyrsta skiptið síðan 2011, en í fyrra nam hann fimm milljónum, miðað við 5,3 milljónir árið 2016. Þróunin skýrist aðallega af fækkun hælisleitenda í Evrópu, en þeir námu 1,2 milljónum í fyrra samanborið við 1,6 milljón árið 2016.
Fleiri störf fyrir innflytjendur
„Löndin hafa náð góðum árangri hvað varðar aðlögun, tungumálakennslu og viðurkenningu á hæfni innflytjenda,“ sagði Angel Gurría, aðalritari samtakanna, við kynningu á skýrslunni í París í síðustu viku. Gurría benti einnig á nauðsyn þess að atvinnurekendur taki þátt í aðlöguninni, en OECD hefur hrundið af stað aðgerðaráætlun í samstarfi við flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem stefnir að auknum starfsmöguleikum fyrir flóttamenn.
Samkvæmt skýrslunni er einnig nauðsynlegt fyrir OECD-löndin að ráðast í aðgerðir gegn ólöglegum störfum innflytjenda. Slíkar aðgerðir ættu annars vegar að fela í sér reglubundið eftirlit á vinnumarkaði og hins vegar að auðvelda innflytjendum að verða úti um lögleg störf. Þetta sé mikilvægt að mati stofnunarinnar þar sem réttindi þeirra í slíkum störfum séu oft fótum troðin auk þess sem starfsemin eigi veigamikinn þátt í að viðhalda neikvæðu almenningsáliti gagnvart innflytjendunum sjálfum.
Áhrif flóttamanna ofmetin
Í fréttatilkynningu samtakanna vegna skýrslunnar er vikið að almenningsáliti vegna áhrifa innflytjenda á vinnumarkaði, en víða eru áhyggjur að innflæði flóttamanna til Evrópu undanfarinna ára hafi neikvæð áhrif á atvinnutækifæri innfæddra. Skýrslan er sú fyrsta til að meta þau áhrif, en samkvæmt henni eru þau óveruleg og áhyggjur um minna starfsöryggi óþarfar. Flóttamenn sem komið hafa til Evrópu myndu ekki stækka vinnumarkaðinn um meira en 0,4 prósent og þar sem margir þeirra haldi sér utan vinnumarkaðsins mun stækkunin líklega ekki nema meira en 0,24 prósentum.