Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fyrr í dag að meðlimir Atlantshafsbandalagsins höfðu fallist á kröfu hans um að auka fjárframlög ríkjanna til hernaðarmála, þrátt fyrir að hafa skrifað undir samþykkt á óbreyttu ástandi. Þetta gerði forsetinn fyrr í dag á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins, en New York Times og Guardian greina frá málinu.
Kjarninn fjallaði í gær um yfirstandandi leiðtogafund aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, en hann fór fram í dag og í gær í Brussel. Trump hóf fundinn í gær með harðri gagnrýni á viðskiptum Þýskalands við Rússland annars vegar og lítilla útgjalda annarra aðildarþjóða til varnarmála hins vegar.
Fyrr í morgun hélt Trump svo áfram gagnrýni sinni á varnarmálaútgjöld, en með því setti morgunfund vegna væntanlegrar innlimunar Georgíu og Úkraínu í sambandið úr skorðum.
Í kjölfarið var svo boðið til neyðarfundar vegna fjármála bandalagsins, en samkvæmt Bandaríkjaforseta bar hann mikinn árangur. Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum NATO fyrr í dag sagði Trump fundinn hafa verið „frábæran“ og að aðildarríki hafi samþykkt að auka útgjöld sín með hraðari hætti en áður var ákveðið. Fyrri samþykktir bandalagsins miðuðu að útgjaldaaukningu þeirra meðlima NATO sem enn höfðu ekki lagt fram 2% af landsframleiðslu til varnarmála, en þjóðirnar samþykktu að stefna að því marki árið 2024.
Trump hefur gagnrýnt stefnu bandalagsins og krafist þess að 2% markinu yrði strax mætt, en forsetinn lét einnig í veðri vaka að meðlimir Nato ættu að ná fjögurra prósenta markinu í framtíðinni.
Þrátt fyrir yfirlýsingar sínar á blaðamannafundinum um hraðari útgjaldaaukningu skrifaði Trump hins vegar undir sameiginlega yfirlýsingu allra 29 aðildarþjóða NATO sem ítrekaði fyrri áætlanir um 2% útgjaldamark fyrir árið 2024.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti leiðtogafundinn sem stóð yfir í gær og í dag, en samkvæmt frétt Stjórnarráðsins ræddi hún sérstaklega um nauðsyn þess að efla þróunaraðstoð, mannúðaraðstoð og stuðning við flóttafólk innan sambandsins.