Alls hefur 57 málum verið vísað til héraðssaksóknara í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á gögnunum sem keypt voru með upplýsingum um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Í þessum málum leiddi rannsókn í ljós stórfelld undanskot.
Lestu meira
Rannsókn er lokið á 89 málum en 14 eru enn í rannsókn. Vantaldir undandregnir skattstofnar nema alls um 15 milljörðum króna. Í 18 málum hefur skattrannsóknarstjóri farið fram með sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd og einu máli hefur verið lokið með sektargerð. Í níu málum hefur ákvörðun verið tekin um að fella niður refsimeðferð. Til viðbótar liggur fyrir ákvörðun um að vísa einu máli til héraðssaksóknara og þremur til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar.
„SRS hefur lokið rannsókn í alls 89 málum sem tengjast svonefndum Panamagögnum. Er þar hvort tveggja horft til mála er lúta að skattskilum þeirra er beint koma fram í nefndum gögnum sem og til þeirra mála sem afleidd eru og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Alls eru 14 mál enn í rannsókn, þar af sjö afleidd mál. Fimm þeirra eru á lokastigi rannsóknar,“ segir í svari fjármálaráðherra.
Enn fremur kemur fram í svari ráðherra að það megi ætla að ástæða sé til að hefja rannsókn á nokkrum málum til viðbótar. Rannsóknir í 12 málum hafa verið felldar niður, þar á meðal sökum þess að grunur hefur ekki reynst á rökum reistur eða vegna þess að ekki hefur reynst unnt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti.
Áður hefur komið fram að kröfur vegna endurálagningar á grundvelli gagnanna séu umtalsvert hærri en kostnaðurinn við kaupin á gögnunum. Ríkið keypti gögnin árið 2015. Í framhaldi af þeim kaupum voru gögnin greind og þær upplýsingar sem þar komu fram m.a. bornar saman við innsend skattframtöl. Í ljós kom að einvörðungu um þriðjungur þeirra einstaklinga, sem gögnin báru með sér að væru raunverulegir eigendur félaganna, höfðu gert grein fyrir eignarhaldi á félögunum í skattskilagögnum sínum. Í þeim tilvikum þar sem gerð var grein fyrir eignarhaldi var ýmist að gerð væri grein fyrir einhverjum umsvifum félaganna eða engum samkvæmt svari ráðuneytisins.
Vanframtaldir undandregnir skattstofnar nema um 15 milljörðum króna en meginhluti skattstofnsins eru fjármagnstekjur. Gjaldabreytingar Ríkisskattstjóra á árunum 2016, 2017 og það sem af er árinu 2018 hafa numið samtals 518 milljónum hjá þeim aðilum sem komu fram í þeim gögnum sem skattstjóri fékk framsend frá skattrannsóknarstjóra. Enn sem komið er liggur ekki fyrir hversu mikið muni innheimtast af þeim fjárhæðum.