Donald Trump forseti Bandaríkjanna fór mikinn á Twitter í nótt, eins og oft áður, og hótaði Írönum öllu illu.
Hassan Rouhani forseti Írans sagði í ræðu í gær að hann varaði leiðtoga Bandaríkjanna við að ganga of langt - að átök við Íran yrði „móðir allra stríða“.
Trump svarar Rouhani í tísti sínu, sem er allt í hástöfum, og varar við afleiðingunum af því að vra með hótanir í garð Bandaríkjanna. Þær verði með svipuðum hætti og örfáir hafi þurft að líða í gegnum tíðina.
„Aldrei aftur hóta Bandaríkjunum eða þið munið gjalda fyrir það með afleiðingum sem fáir hafa þurft að ganga í gegnum áður,“ skrifar Trump.
„Við erum ekki lengur ríki sem lætur yfir sig ganga með vitstola orðfæri ofbeldis og dauða. Gætið varúðar.“
Ummæli Trump minna mjög á samskipti hans við leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un, á samfélagsmiðlinum, en þá hótaði hann Kim öllu illu áður en leiðtogarnir tveir hittust á leiðtogafundi fyrr í sumar.
To Iranian President Rouhani: NEVER, EVER THREATEN THE UNITED STATES AGAIN OR YOU WILL SUFFER CONSEQUENCES THE LIKES OF WHICH FEW THROUGHOUT HISTORY HAVE EVER SUFFERED BEFORE. WE ARE NO LONGER A COUNTRY THAT WILL STAND FOR YOUR DEMENTED WORDS OF VIOLENCE & DEATH. BE CAUTIOUS!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 23, 2018