Tap Icelandair á öðrum ársfjórðungi nam 2,7 milljörðum íslenskra króna, en það sem af er ári hefur flugfélagið alls tapað 6,4 milljörðum. Ef miðað er við sama tímabil í fyrra hefur tap félagsins rúmlega þrefaldast milli ára. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri félagsins.
Samkvæmt uppgjörinu jukust heildartekjur um 9% milli ára og náðu 399 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 367,3 milljónir dala árið áður. Aftur á móti jókst kostnaður fyrirtækisins enn meira, eða um 18%, úr 326,7 milljónum dala í fyrra upp í 384,213 milljónir dala í ár. Þar vó hæst almennur flugkostnaður, en launakostnaður félagsins jókst einnig nokkuð.
Á öðrum ársfjórðungi nam tap félagsins 25,7 milljónum dala, í samanburði við 9,9 milljón dala hagnað á sama tímabili í fyrra. Ef litið er á fyrri árshelminginn 2018 er tap flugfélagsins 60,3 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 6,4 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar var tap Icelandair á fyrri árshelmingi 2017 einungis 20 milljónir Bandaríkjadala, eða 2,1 milljarðar íslenskra króna.
Hærra skuldahlutfall
Samhliða auknum halla félagsins hefur efnahagsreikningurinn einnig stækkað nokkuð það sem af er ári, með meiri eignum og skuldum en undir lok síðastliðins desembermánaðar. Skuldahlutfall þeirra hefur einnig hækkað nokkuð milli árshelminga, en nú nema skuldir félagsins um 68% af eignum, í samanborið við 58% undir lok árs 2017.
Í tilkynningu sem fylgdi birtingu uppgjörsins í Kauphöllinni sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, samkeppnina á mörkuðum sjaldan hafa verið meiri. Einnig sagði hann félagið hafa unnið að viðamiklum breytingum á félaginu á tímabilinu, meðal annars sölu á hótelrekstur félagsins og kaup á nýjum Boeing MAX flugvélum. Björgólfur telur félagið í góðri stöðu til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem upp kunna að koma við slíkar aðstæður.
Kjarninn fjallaði um erfiðleika Icelandair á hlutabréfamarkaði fyrr í dag, en verðmiði félagsins er kominn langt undir eigið fé. Hann nemur nú um 40 milljörðum króna, en fór hæst í 180 milljarða króna fyrir skömmu síðan. Félagið er að stærstum hluta í almenningseigu í gegnum eignarhlutdeild lífeyrissjóðanna.
Í fyrramálið fer svo fram kynningarfundur kl. 08:30 á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Þar munu Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála, kynna afkomuna og svara spurningum ásamt öðrum stjórnendum félagsins.