Evrópusambandið stefnir að því að koma af stað aðgerðaráætlun gegn kosningaáróðurs í formi falsfrétta á samfélagsmiðlum í haust. Þetta kemur fram í frétt á vef sem The Guardian birti í morgun.
Samkvæmt fréttinni sagði Vera Jourová, framkvæmdastjóri dómsmála hjá sambandinu, ríkisstjórnir aðildarþjóðanna þurfa að samrýma aðgerðir sínar til að berjast gegn falsfréttum og misnotkun á persónuupplýsingum í pólitískum auglýsingum.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig lagt fram starfsreglur fyrir öll aðildarríki þess til að berjast gegn misvísandi upplýsingum, hvetja samfélagsmiðla til að takmarka persónumiðaðar auglýsingar í pólitískum tilgangi og auka gagnsæi í fjármögnun slíkra kosningabarátta. Enn fremur hefur stjórnin kallað eftir sjálfstæðs vettvangs staðreyndavaktara auk aðgerða til að bæta gæði fréttamennsku og fjölmiðlalæsi innan sambandsins.
Liggur fyrir í haust
Samkvæmt Jourová hafa falsfréttir og íhlutanir í kosningum sem byggðar eru á misvísandi upplýsingum áhrif á allt sambandið í heild sinni þótt regluverk í kringum kosningar til ríkisstjórna sé í höndum hverrar aðildarþjóðar. „Við þurfum að bæta samstarf okkar í þessum málum innan allrar álfunnar,“ sagði Jourová og bætti við að stefnuyfirlýsing eða aðgerðaráætlun ætti að liggja fyrir í haust.
Frétt Guardian vísar einnig í skýrslu sem Oxford Internet Institute birti nýlega, en samkvæmt henni hafa fundist sannanir um skipulagðar íhlutanir í kosningum í 48 löndum í ár. Talan hefur hækkað ört á skömmum tíma, en í fyrra námu íhlutanirnar alls til 28 landa.