Fjöldi skráðra dauðsfalla vegna jarðskjálfta á Lombok-eyju í Indónesíu telur nú 347 manns, samkvæmt ríkismiðlinum þar í landi, Antara. CNN greindi fyrst frá.
Jarðskjálftinn, sem reið yfir eyjuna síðastliðinn sunnudag, náði 6,9 stigum á Richter og var skæðastur á norðurhluta eyjunnar. Með nýjustu tölum stóreykst áætlað manntjón af skjálftanum, en opinberar tölur höfðu áður sagt frá 105 dauðsföllum vegna hans.
Um 200 þúsundir manna lifa í norðurhluta Lombok-eyjar, en talið er að um 165 þúsundir manna hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna skjálftans. Þar af hafa allavega 347 manns látist og 1.447 manns til viðbótar slasast. Samkvæmt frétt CNN hefur um 80% bygginganna á jarðskjálftasvæðinu eyðilagst.
Jarðskjálftasvæðið er rétt hjá Gili eyjum, sem er vinsæll ferðamannastaður í Indónesíu. Þar hafi tvö þúsund ferðamenn verið á meðan á skjálftanum stóð. Allir ferðamennirnir hafa nú verið fluttir burt af eyjunum.