Farþegafjöldi Icelandair hefur minnkað um 5 prósent milli júlímánaða 2017 og 2018. Enn fremur lækkaði sætanýting félagsins, þrátt fyrir minna framboð af sætum. Samkvæmt flugfélaginu eru helstu ástæður fækkunarinnar minni eftirspurn af N-Ameríkuflugum og flugum þvert yfir N-Atlantshafið. Þetta kemur fram í flutningatölum Icelandair sem birtar voru á vef Kauphallarinnar í gær.
Samkvæmt tilkynningu flugfélagsins liggur stór þáttur fækkunarinnar í minni sölu á N-Ameríkuflugum félagsins, en sala á áfangastaði í N-Ameríku hefur ekki fylgt framboðsaukningunni á nýjum flugfélum þangað.
Til samanburðar var sætanýting á leiðum félagsins í Evrópu 90,7% og jókst um 2,9 prósentustig milli ára, á meðan sætanýting á leiðum í N-Ameríku var 81,9% og lækkaði um 8,9 prósentustig milli mánaða. Heildarfjöldi farþega Icelandair í júlí nam svo 519 þúsundum og lækkaði um 5% milli ára frá 545 þúsundum í júlí í fyrra.
Umferðarmiðstöð Atlantshafsflugs
Ásamt færri flugum til nýrra áfangastaða í N-Ameríku kemur fram í tilkynningu Icelandair að farþegar í N-Atlantshafsflugum þess fari fækkandi, á sama tíma sem fjöldi farþega á heimamarkaðinum frá Íslandi og ferðamannamarkaðinum ti Íslands jókst milli ára. Kjarninn hafði í síðustu viku eftir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands að Ísland muni gegna lykilhlutverki í Atlantshafsflugi í framtíðinni með auknum netáhrifum. Þar taldi Ásgeir þessa þróun munu halda áfram, hvort sem íslensku flugfélögin verði áfram leiðandi í þeirri þróun eða hve mikið af þessu ferðafólki geri sér ferð inn í landið sjálft.
Tölur um fækkun farþega Icelandair eru enn ein vísbending um versnandi afkomu íslensku flugfélaganna Icelandair og WOW air. Kjarninn fjallaði um nýbirt hálfsársuppgjör hins fyrrnefnda, sem tapaði 6,3 milljörðum króna á fyrri helmingi árs. WOW air hefur hins vegar ekki birt ársreikning fyrir árið 2017 eða upplýsingar um rekstur félagsins á þessu ári. Búist er við skil á ársreikningi félagsins síðar í þessum mánuði eða byrjun þess næsta.