Börn og ungmenni, sem flýja ofbeldi, skipulagða glæpastarfsemi og fátækt í Mið-Ameríku, eiga á mikilli hættu að festast í vítahring flótta og brottvísana. Þar eru fylgdarlaus börn og konur í hvað viðkvæmastri stöðu og eiga á verulegri hættu á að verða fyrir ofbeldi og misnotkun, seld mansali eða jafnvel drepin á leið sinni.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um börn og ungmenni á flótta og faraldsfæti frá Mið-Ameríku og Mexíkó sem kom út í dag á vegum UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Jafnframt kemur fram að ofbeldi, glæpir og gengjastríð, fátækt og skortur á tækifærum til menntunar séu helstu ástæður þess að börn og fjölskyldur í Mið-Ameríku, sem samanstendur af El Salvador, Gvatemala og Hondúras, og Mexíkó leggi af stað í hættulegt ferðalag í leit að betra lífi, yfirleitt með stefnuna á Bandaríkin. Mörg þeirra hafi borgað smyglurum í upphafi ferðarinnar, standa í mikilli skuld, og séu líklegri til að upplifa enn meiri fátækt, ofbeldi, hótanir og félagslega einangrun ef þeim er vísað aftur til heimalands síns.
Strangara landamæraeftirlit gerir illt verra
Marita Perceval, svæðisstjóri UNICEF fyrir Mið-Ameríku og Karíbahaf, segir að milljónir barna á svæðinu séu sérlega viðkvæm sökum fátæktar, mismununar, ofbeldis og ótta við brottvísanir. Í mörgum tilvikum eigi börnin, sem send eru aftur til upprunalandsins, ekkert heimili til að snúa aftur til, séu með miklar skuldir á bakinu eða verði skotmörk glæpagengja. „Að senda þau aftur í svo ómögulega stöðu gerir það enn líklegra að þau leggist á flótta á ný,“ segir hún.
---
„Strangara landamæraeftirlit kemur í raun ekki í veg fyrir það að börn og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu freisti þess að komast yfir landamærin, en eykur þess í stað óþarfa þjáningu fólks á flótta. Barn er fyrst og fremst barn, hverjar svo sem aðstæður hans eða hennar eru. Það þarf að ráðast að rót vandans og tryggja um leið öryggi barnanna á ferð sinni,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.